Bæjarráð bendir á að Ríkisútvarpið sé útvarp allra landsmanna og sé fjármagnað með nefskatti sem hljóti
að leggja þær skyldur á herðar stofnuninni að tryggja eðlilegt jafnvægi í fréttaflutningi af landinu öllu.
Svæðisstöðvarnar gegni jafnframt mikilvægu hlutverki í að bæta upplýsingagjöf og efla samkennd íbúa á þeim
svæðum sem þær þjóna.
Bæjarráð vekur athygli þingmanna á gölluðum lögum um Ríkisútvarpið þar sem eina ákvæðið um starfsemi
þess á landsbyggðinni er: ,,Að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins."
Bæjarráð gagnrýnir harðlega hið þrönga sjónarhorn stjórnar og yfirmanna Ríkisútvarpsins sem birtist í fyrirhuguðum
aðgerðum og ítrekar fyrri bókanir sínar í þessu máli.
Bæjarráð skorar á stjórn RÚV og menntamálaráðherra að endurskoða þessa ákvörðun áður en hún
veldur óbætanlegu tjóni fyrir mannlíf á landsbyggðinni.