Vinnuhópur um íbúalýðræði og gagnsæa stjórnsýslu á Akureyri hefur skilað af sér tillögum en hópurinn var var skipaður í febrúar í fyrra. Verkefni hópsins var að koma fram með tillögur um það hvernig hægt sé að stíga virk og hröð skref í átt að íbúalýðræði og gagnsærri stjórnsýslu í bænum. Meðal þess sem vinnuhópurinn leggur til í skýrslu til bæjaryfirvalda er að fjölga bæjarfulltrúum um fjóra eða úr 11 í 15 frá og með næstu sveitarstjórnarkosningum.
Þá er lagt til að stofnað verði íbúaráð í stað hverfisnefndanna í því formi sem þær eru starfræktar nú og tekið verði upp persónukjör í næstu sveitarstjórnarkosningum. Tillaga um borgarfundi í aðdraganda fjárhagsáætlunargerðar er einnig að finna í skýrslunni. Lagt er til að tekið verði upp tilraunaverkefni um opna íbúafundi að minnsta kosti tvisvar sinnum í aðdraganda fjárhagsáætlunarvinnu ár hvert.
Farið er ítarlega yfir þessar tillögur í prentútgáfu Vikudags sem kom út í gær.
-Vikudagur, 25. febrúar