Vöxtur varð á nær öllum sviðum starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) árið 2014, annað árið í röð og reksturinn í jafnvægi. Meðal annars er markvisst unnið að því að sjúkrahúsið fái alþjóðlegan gæðastimpil, fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana. Þetta er meðal þess sem fram kom á ársfundi sjúkrahússins, sem haldinn var á dögunum.
Með hækkun fjárframlaga í fjárlögum varð viðsnúningur til hins betra í rekstri og starfsemi SAk. Aukin fjárveiting gerði einnig kleift að ráðast í brýnar endurbætur á húsnæði og kaup á ýmsum tækjum og búnaði. Heildarútgjöld voru 6.271 milljón króna og hækkuðu um 12% á milli ára. Fjárveitingar ríkissjóðs til rekstrar á árinu námu 5.529 milljónum króna og hækkuðu um 14% frá fyrra ári. Sértekjur námu 681 milljón, sem er 7,5% umfram áætlun.
Tekjuhalli ársins varð 9 milljónir króna, eða 0,2% miðað við fjárveitingu. Í árslok var höfuðstóll neikvæður um 66,5 milljónir króna. Til meiri háttar viðhalds var varið 198 milljónum króna og til kaupa á stærri tækjum og búnaði 273 milljónum. Nánar er fjallað um stöðu SAk í prentútgáfu Vikudags.