Auknar líkur á álþynnuverksmiðju

Auknar líkur eru nú taldar vera á því að af stofnun álþynnuverksmiðju verði á Akureyri, og gæti komið að vendipunkti í undirbúningi að stofnun verksmiðjunnar áður en langt um líður. Erfitt er þó að fá menn til að tjá sig nákvæmlega um hvað er að gerast, þeir segja verkefnið á viðkvæmu stigi, en sú undirbúningsvinna sem unnin hefur verið hefur tekið fimm ár. ,,Ég met þetta þannig núna að líkurnar á að af þessu verði séu mjög svipaðar og áður í þessu ferli, en mér finnst þó vera meiri áhugi á verkefninu en oft áður," segir Kristján Þór Júlíusson forseti bæjarstjórnar Akureyrar, en það var í bæjarstjórasetu hans sem þetta verkefni fór af stað, sem samvinnuverkefni Akureyrarbæjar og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar sem hafa unnið að málinu síðan. Hinu megin borðsins er ítalskt fyrirtæki sem hefur alla tíð sýnt því mikinn áhuga á að koma verksmiðjunni upp á Akureyri.

Lóð fyrir verksmiðjuna er þegar frátekin samkvæmt aðalskipulagi og er hún sunnan við höfuðstöðvar Norðurorku á Rangárvöllum í útjarðri bæjarins. Ef af verður munu sennilega koma til með að starfa á bilinu 75 til 100 manns í verksmiðjunni í upphafi. Verkjsmiðjan vinnur þynnur og þétta úr hreinu áli og eru þessar vörur notaðar í ýmsar gerðir rafmagnstækja.

Nýjast