Aukin áhersla á kynjaða fjárhagsáætlun
Margrét Kristín Helgadóttir, oddviti Bjartrar framtíðar á Akureyri, hóf umræðu um kynjaða fjárhagsáætlun á bæjarstjórnarfundi í gær og lagði fram eftirfarandi bókun: Kynjuð fjárhagsáætlunargerð er metnaðarfullt verkefni sem kallar á breytingu í hugsun og verki með það að leiðarljósi að skapa sem mesta jafnræði á meðal bæjarbúa.
Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir að við endurskoðun á Jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar nú í vor verði lögð aukin áhersla á innleiðingu kynjasamþættingar og kynjaðrar fjárhagsáætlunargerðar í samræmi við þá vinnu sem þegar er hafin ásamt því að gerð verði nákvæm aðgerðaráætlun yfir það hvernig verkefnið skal unnið sem skuli kynnt fyrir bæjarráði.
Aðgerðaráætlun verði tilbúin fyrir haustið 2015. Stefnt skal að því að innleiðing verði vel á veg komin við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017."