Auglýsingar Bónuss slá ryki í augun neytenda

Bændasamtökin sendu nú rétt í þessu frá yfirlýsingu sem ber yfirskriftina „Af hverju ekki að lækka vöruverð strax? – Draumalandsauglýsingar Bónuss slá ryki í augu neytenda”. Í yfirlýsingunni segir meðal annars: „Auglýsingar Bónuss um síðustu helgi, sem kenndar eru við „Draumalandið”, eru ekki aðeins ávísun á stórlækkað verð á innfluttum landbúnaðarafurðum til neytenda.

Miklu meiri athygli vekur að þær virðast fyrirboði gerbreyttrar álagningarstefnu fyrirtækisins. Bændasamtök Íslands hvetja Bónus til að sýna styrk sinn og heimfæra þessa stefnu upp á íslenskar landbúnaðarvörur og stuðla þannig að verulegri lækkun þeirra nú þegar." Bændasamtökin nefna til sögu verðdæmi af erlendum kjúklingabringum og kemur það fram að samkvæmt útreikningum þeirra sé álagning Bónuss á vöruna einungis 5%. Fyrir þessa 5% álagningu eigi eftir að skipa bringunum upp, aka vörunni til birgðastöðvar, dreifa á sölustaði, selja og taka tillit til vörurýrnunar.

Fleiri dæmi um svipaða álagningu Bónuss á innfluttar landbúnaðarvörur eru einnig rakin í yfirlýsingunni. Yfirlýsingunni lýkur á þeim orðum að því verði ekki trúað að Bónus ætli að leggja minna á innfluttar búvörur en þær innlendu.

Nýjast