Atvinnulífið kallaði eftir fjölbreyttara tækninámi

Ólafur Jónsson verkefnastjóri við Háskólann á Akureyri
Ólafur Jónsson verkefnastjóri við Háskólann á Akureyri

„Ég á fastlega von á að það verði góð viðbrögð og marga fýsi að stunda þetta nám,“ segir Ólafur Jónsson   verkefnastjóri við Háskólann á Akureyri en frá og með næsta hausti, 2023 munu Háskólinn á Akureyri og Háskólinn  í Reykjavík bjóða upp á nám í iðnaðar- og orkutæknifræði á Norðurlandi. Námið er fullgilt tæknifræðinám við Háskólann í Reykjavík og tekur það mið af þörfum atvinnulífsins á Norðurlandi. Það gerir fólki á svæðinu kleift að stunda námið í heimabyggð.

Ólafur segir að um sé að ræða staðarnám við Háskólann á Akureyri og er það fjarkennt frá Háskólanum í Reykjavík á sama tíma og fyrirlestrar í tæknifræði fara þar fram. Þá njóta nemendur þeirrar þjónustu sem Háskólinn á Akureyri hefur upp á að bjóða, sækja þangað dæmatíma og fá þar verklega kennslu. Nemendurnir eru jafnframt fullgildir nemendur í tæknifræði við Háskólann í Reykjavík.

„Við höfum verið með þetta nám í undirbúningi um nokkurt skeið. Atvinnulífið norðan heiða hefur kallað nokkuð ákaft eftir fjölbreyttara námi í tæknigreinum en verið hefur í boði,“ segir Ólafur. Fyrirkomulag námsins byggir á reynslu sem fengist hefur í námi í tölvunarfræði við HR en það hefur verið kennt við HA undanfarin átta ár í samstarfi háskólanna. Samstarfssjóður háskóla og fyrirtæki á Norðurlandi styðja við nýju námsbrautina.

Tæknin alltaf að aukast

„Tæknin er alltaf að aukast og breytast, þannig að fyrirtæki af ýmsu tagi hafa mikla þörf á að bæta við sig tæknimenntuðu starfsfólki,“ segir Ólafur. „Það er sama hvert litið er, í sjávarútvegs-, orku- eða framleiðslufyrirtæki, það er allt á fleygiferð og framþróun á sviði tækni er mikil. Það er því afar ánægjulegt að nám í tæknifræði verði í boði hér fyrir norðan frá og með næsta hausti.“

Ólafur segir að tæknifræðingum bjóðist fjölbreytt störf að námi loknu og þeir hafi kost á að sérhæfa sig strax í sínu námi standi hugur þeirra og áhugi í ákveðna átt. „Störfin eru margvísleg, það er hægt að sitja á skrifstofum og forrita eða sjá um tölvustýringar, en líka vera úti á vettvangi í alls kyns viðhaldi og viðgerðum, allt eftir áhugasviðum þeirra sem starfa við greinina.

Höfðar til breiðs hóps

Sér Ólafur fyrir sér að iðnaðarmenn t.d. á sviði vélstjórnar, vél- og rafvirkjunar eða málmiðnaðarmenn gætu haft áhuga á að bæta tæknifræðinni við sitt fyrra nám að uppfylltum inntökuskilyrðum. „Það er rökrétt framhald fyrir þau sem hafa aflað sér iðnmenntunar að bæta þessu námi við sig og auka þannig möguleika sína í atvinnulífinu. Þetta nám er mjög góður kostur fyrir þennan hóp,“ segir hann. Eins segir hann að raungreinafólk sem er að útskrifast úr framhaldsskóla og hugsi sér að læra verkfræði gæti tekið fyrri hluta þess náms sem tæknifræði í heimabyggð. Hann nefnir að margir séu einungis 18 til 19 ára þegar þeir ljúka námi úr framhaldsskóla og gætu eflaust hugsað sér að vera lengur í heimabyggð.  „Tæknifræði er góður valkostur fyrir þá sem síðar vilja ljúka námi í verkfræði.“

Ólafur segir að þannig megi gera ráð fyrir að námið höfði til breiðs hóps og er ekki í vafa um að eftirsókn verði umtalsverð þegar opnað verður fyrir innritun í byrjun febrúar næstkomandi.

 


Athugasemdir

Nýjast