Atvinnulausir kynni bæjarbúum flokkun á sorpi

Á Norðurlandi eystra voru ríflega 1.300 manns án atvinnu í lok mars sl. en á  sama tíma í fyrra voru 200 fleiri í þeim hópi. Á Akureyri voru 926 manns á skrá, þar af voru 655 að fullu atvinnulausir, 412 karlar og 243 konur. Í aldurshópnum 16-24 ára voru 154 án atvinnu. Hjá Vinnumálastofnun er reiknað með að stór hluti þeirra sem eru án atvinnu komist í sumarstörf.  

Þetta kemur fram í fundargerð frá síðasta fundi Almannaheillanefndar. Á fundinum kom fram tillaga um að Akureyrarbær ráði til starfa fólk af atvinnuleysisskrá til þess að heimsækja bæjarbúa og kynna þeim flokkun á sorpi í samræmi við nýjar áherslur. Nokkur erill er á skrifstofum stéttarfélaganna og þar hefur starfsfólk áhyggjur af því að fiskvinnslufyrirtæki loki í meira en 8 vikur í sumar. Einnig kemur fram í fundargerðinni að verkefnið Ungt fólk til athafna hefur gengið mjög vel. Í haust verður virknitilboðum beint að hópi langtímaatvinnulausra þ.e. þeim sem hafa verið án atvinnu í meira en 12 mánuði. Þar á eftir er reiknað með að áhersla verði lögð á tilboð til erlendra ríkisborgara. Gott samstarf hefur verið milli Vinnumálastofnunar og samfélags- og mannréttindadeildar í Rósenborg um ýmis mál. Vinnumarkaðsráð hefur ákveðið að styrkja Grasrót/Iðngarða um húsaleigu á móti Akureyrarbæ.

Nýjast