Atli: Frábært að byrja með sigri

Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar var ánægður með sína menn eftir sigurleikinn gegn HK í Höllinni á Akureyri í kvöld í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum N1-deildar karla í handbolta. Eftir að hafa verið undir nánast allan fyrri hálfleikinn komu norðanmenn sterkir inn í seinni hálfleikinn og unnu að lokum tveggja marka sigur, 26:24, og hafa 1:0 yfir rimmunni.

„Það er frábært að byrja með sigri og það skiptir ekki máli hvernig þú vinnur leikinn. Það þarf að klára sigurinn. Það var ýmislegt sem var ekki í lagi í fyrri hálfleik, sérstaklega í varnarleiknum. Við bættum hana í seinni hálfleik þar sem hún var mjög góð. Við lentum líka í brottvísa vandræðum í seinni hálfleik og vorum mikið manni færri sem var erfitt. Þetta var góður sigur og verður bara stríð og gefur fyrirheit um það sem koma skal,” sagði Atli.

Liðin mætast að nýju í Digranesi í Kópavogi á laugardaginn kemur kl. 16:00 og vinni Akureyri þann leik eru þeir komnir í úrslit.

„Við ætlum auðvitað að reyna að klára þetta á laugardaginn. Mér líst vel á að mæta þeim í Kópavogi, við unnum þar þrisvar í vetur og þetta hús virðist hentar okkur vel. Það verður vonandi sama upp á teningnum þar og hér. Þetta verður erfitt og er bara blóðugt stríð,” sagði Atli.

 

Atli Ævar: Ætlum að koma aftur norður 

Atli Ævar Ingólfsson línumaður í liði HK bar sig ágætlega eftir leikinn þrátt fyrir tap í kvöld.

„Þetta var hörkuleikur og svekkjandi að tapa svona leik. Það var frábær stemmning í Höllinni í kvöld og það er alltaf gaman að spila hérna. Það gekk allt þokkalega upp í fyrri hálfleik sem við lögðum upp með en svo fannst mér við slútta sóknunum svolítið snemma í seinni hálfleik og þetta bara féll með Akureyringum í kvöld,” sagði Atli.

Leikurinn á laugardaginn verður upp á líf og dauða fyrir HK en með tapi er liðið úr leik.

„Við verðum bara að vinna á laugardaginn. Þá er bara nýr leikur og það dugir ekkert nema sigur þar til þess að halda okkur inn í þessu. Við ætlum klárlega að fara í þrjá leiki. Við munum keyra á þá og sækja sigur á heimavelli og svo mætum við aftur norður,” sagði Atli Ævar.

Vinni HK á laugardaginn mætast liðin í oddaleik á Akureyri á mánudagskvöldið kemur kl. 19:30.

Nýjast