Atli: Erum tilbúnir í fimm leiki

Þungu fargi var létt af Atla Hilmarssyni þjálfara Akureyrar eftir eins marks sigur liðsins gegn FH á heimavelli í dag, 23:22, í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik. Akureyringar sáu til þess að enginn bikar fór á loft í dag og er staðan í einvíginu 2:1 fyrir FH. Frábær stemmning var í Höllinni en alls voru áhorfendur 1058 talsins. „Þessir leikir eru mjög stressandi og þetta sýnir bara hversu lítill munur er á liðinum. Það mátt lítið útaf bregða en við erum á lífi í þessari baráttu og erum tilbúnir í þessa fimm leiki sem þarf,” sagði Atli við Vikudag eftir leik.

„Það er auðvitað léttir að vera kominn með sigur. Við vorum svolítið ósáttir að fá ekkert út úr fyrstu tveimur leikjunum, það féll ekkert með okkur í þeim leikjum. Við bættum varnarleikinn í seinni hálfleik hjá okkur í dag og Sveinbjörn (Pétursson) kom líka sterkur inn í markið og þá fengum við hraðarupphlaupsmörk sem eru gulls í gildi. Við erum vel á lífi í þessu og mér finnst vera stígandi í okkar leik og við eigum nóg eftir. Við ætlum klárlega að mæta hér í Höllina aftur á föstudaginn. Það var frábær stuðningur sem við fengum hér í dag og vonandi fáum við góðan stuðning í Kaplakrika á miðvikudaginn,” sagði Atli. 

Heimir Örn Árnason fyrirliði Akureyrar var að vonum kampakátur eftir sigurinn. Heimir skaut framhjá úr upplögðu færi á lokasekúndunum í öðrum leiknum í Kaplakrika, en svaraði því með stjörnuleik í Höllinni í dag. 

„Þetta var alveg fáránlega stressandi þarna í lokin. Ég veit ekki hvað ég hefði gert ef við hefðum klúðrað þessu í lokin. Ég hefði örugglega snappað þannig að það var eins gott að við kláruðum þetta. Það hefði verið niðurlæging að tapa þessu einvígi 0:3 og hefði ekki verið sanngjarnt, ” sagði Heimir, sem var markahæstur í liði Akureyrar í dag með 7 mörk. 

„Ég var svo brjálaður eftir leik númer tvö að ég er ennþá að jafna mig. Þetta var eina leiðin til þess að svara þessu klúðri. Við erum vel á lífi og ég er handviss um það leikurinn á miðvikudaginn verður svipað spennandi og vonand dettur þetta aftur okkar megin. Þetta er svo gaman maður að ég ætla mæta aftur í Höllina á föstudaginn,” sagði Heimir. 

Ásbjörn Friðriksson í liði FH var ekki jafn upplitsdjarfur er Vikudagur hitti hann eftir leik.

„Við vorum nálægt því að tryggja okkar framlengingu og þar af leiðandi tíu mínútur í viðbót og aldrei vita hvað hefði gerst þar. Okkur tókst það ekki þannig að það er bara nýr leikur á miðvikudaginn,” sagði Ásbjörn. Leikir liðanna hafa verið frábær skemmtun fyrir áhorfendur og góð auglýsing fyrir íslenskan handbolta.

„Þetta eru áþekk lið. Bæði lið eru að spila góðan varnarleik og leggja sig 100 prósent fram. Við lögðum okkur vel fram í dag en það voru nokkur smáatriði í okkar leik sem við þurfum að fara yfir fyrir næsta leik. Vonandi náum við því fram þá.” FH fær annað tækifæri til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratilinn í fjórða leiknum á miðvikudaginn og það á heimavelli í Kaplakrika. 

„Fyrst við fengum tækifæri til þess að klára þetta í dag að þá reyndum við það að sjálfsögðu en svo bara reynum við á miðvikudaginn aftur. Stuðningsmennirnir okkar hefðu sennilega viljað fagna titlinum í dag en þeir fá hins vegar einn heimaleik í viðbót og vonandi náum við að fylla kofann í næsta leik og fá álíka skemmtun og í síðasta heimaleik hjá okkur,” sagði Ásbjörn. 

Vinni Akureyri á miðvikudaginn mætast liðin í hreinum úrslitaleik í Höllinni á Akureyri á föstudagskvöldið kemur.

Nýjast