Átján marka sigur Vals gegn KA/Þór

Valur átti ekki í teljandi vandræðum með lið KA/Þórs í kvöld er liðin mættust í KA- heimilinu í N1- deild kvenna í handbolta. Valur sigraði með átján marka mun, 31:13, eftir að hafa haft sex marka forystu í hálfleik, 13:7. Berglind Hansdóttir fór hamförum í marki gestanna en hún varði 30 skot í leiknum, þar af eitt víti. 

Markahæstar í liði KA/Þórs í leiknum voru þær Marta Hermannsdóttir, Arna Valgerður Erlingsdóttir og Ásdís Sigurðardóttir með 3 mörk hver. Selma Sigurðardóttir varði 8 skot í marki KA/Þórs og Lovísa Eyvindsdóttir 1 skot.

Ágústa Edda Björnsdóttir var markahæst í liði Vals með 6 mörk og þær Rebekka Skúladóttir, Karólína Gunnarsdóttir, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir og Íris Ásta Pétursdóttir skoruðu 3 mörk hver.

Valur er sem fyrr taplaust á toppi deildarinnar og er komið með 38 stig, en KA/Þór situr sem fastast í sjöunda sætinu með 11 stig.

Nýjast