Átakið Ungt fólk til athafna hefst í vikunni

„Þetta er mjög spennandi átak og ég bind miklar vonir við að það skili árangri," segir Soffía Gísladóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra, um ný tækifæri fyrir unga atvinnuleitendur sem félags- og tryggingamálaráðuneytið kynnti nýverið.  Yfirskrif þess er; Ungt fólk til athafna.  

Átakið hefst í vikunni og nær til fólks á aldrinum 18 til 24 ára.  Á starfssvæði Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra eru um 250 ungmenni á atvinnuleysisskrá. Markmiðið er að tryggja að enginn verði atvinnulaus lengur en þrjá mánuði án þess að bjóðast vinna eða virkniúrræði. Ungu fólki án atvinnu bjóðast námstækifæri í framhaldsskólum, eða á vegum símenntunarstöðva, ný starfsþjálfunarpláss og störf við átaksverkefni. Einnig verður boðið upp á sjálfboðaliðastörf, ný pláss á vinnustofum, ásamt endurhæfingar- og meðferðarúrræðum.

Soffía segir á samstarf verði við nokkra aðila norðan heiða, m.a. Grasrót, Menntasmiðjuna, Akureyrarstofu, Rauða krossinn, Símey, Fjölsmiðjuna og Verkmenntaskólann á Akureyri.  Boðið verði upp á eitt eða fleiri úrræði hjá hverjum og einum, ýmist náms- eða starfstengt.  „Við munum kalla á okkar fólk í viðtal og byrja í vikunni og öllum sem á skrá eru og hafa verið lengur en þrjá mánuði verður gert að velja eitthvert úrræðanna sem í boði er.  Þeir sem ekki velja neitt verða teknir af atvinnuleysisskrá," segir Soffía.  Samstarf hefur tekist milli Vinnumálastofnunar og Símeyjar varðandi ráðgjafaþjónustu og munu starfsmenn hjá Símey einnig hafa með höndum viðtöl. 

„Við erum að sinna fólki á atvinnuleysisskrá mun betur en áður, samskiptin eru meiri og fólk færi betri þjónustu, það er af hinu góða og ég verð ekki vör við annað en fólk sé ánægt með það," segir Soffía. Hún kveðst binda miklar vonir við átakið Ungt fólk til athafna, enda sé þetta sá hópur sem er í mestri áhættu.  „Í þessum hópi er fólkið með minnstu menntunina og minnstu starfsreynsluna og situr því oft eftir. Það er mikilvægt að það fái tækifæri á að spreyta sig á vinnumarkaði, efla færni sína og auka sjálfstraustið.  Það mun skila sér þegar fram í sækir," segir Soffía.

Nýjast