Átak og Vaxtarræktin sameinast

Fanney Benediktsdóttir og hjónin Ágúst Guðmundsson og Guðrún Gísladóttir, sem hafa átt og rekið líkamsræktarstöðina Átak við Strandgötu á Akureyri, hafa keypt húseignina Skólastíg 4. Um er að ræða 2000 fermetra líkamsræktarhús milli Íþróttahallarinnar og Sundlaugar Akureyrar og er það keypt af Hömlum, dótturfélagi Landsbankans. Stefnt er að því að opna þar líkamsræktarstöð í janúar.  

Jafnframt eignast Sigurður Gestsson, sem hefur til fjölda ára rekið Vaxtarræktina í kjallara Íþróttahallarinnar, fjórðungshlut í Átaki heilsurækt á móti núverandi eigendum. Vaxtarræktin hættir starfsemi í núverandi húsnæði og verður hluti af rekstri Átaks heilsuræktar í hinu nýja líkamsræktarhúsi. Húseignin við Skólastíg 4 er keypt með fyrirvara um samþykki Akureyrarbæjar, sem á forkaupsrétt að húsinu. Ekki er komið nafn á hina nýju líkamsræktarstöð við Skólastíg, sem eins og fyrr segir verður að óbreyttu opnuð í síðari hluta janúarmánaðar. Starfsemi Átaks heilsuræktar við Strandgötu verður með svipuðu sniði áfram, en rekstur hennar hefur gengið vel. Blæbrigðamunur verður á rekstri stöðvanna og verða aðgangskort í nýju stöðinni við Skólastíg á lægra verði en í Átaki við Strandgötu.

Nýjast