Ástandið kallar á fjölbreyttar leiðir til hagræðingar

Samsett mynd/Vikublaðið
Samsett mynd/Vikublaðið

Í annarri ársfjórðungsskýrslu PCC samsteypunnar sem nú er komin út kemur fram að PCC BakkiSilicon hf. heldur áfram að skila tapi og er það rekið til þess að heimsmarkaðsverð á kísilmálmi hefur hríðfallið vegna Kórónuveiru faraldursins eins og komið hefur fram í fréttum. Eins og kunnugt er hafa báðir ofnar verksmiðjunnar á Bakka verið stöðvaðir og um 80 manns verið sagt upp.

Miðað við það sem kemur fram í skýrslunni er fullur hugur innan fyrirtækisins um að koma framleiðslu af stað aftur þegar aðstæður lagast. Ráðist hefur verið í umtalsverðar framkvæmdir við að hámarka afkastagetu ofnanna tveggja. Þá er einnig markvisst verið að vinna í markaðsmálum fyrirtækisins.

Lokun verksmiðjunnar hefur ótvírætt alvarlegar afleiðingar á atvinnulíf og tekjustreymi Norðurþings.

Ganga út frá því að verksmiðjan fari í gang

Þegar blaðamaður Vikublaðsins leitaði svara hjá Kristjáni Þór Magnússyni, sveitarstjóra Norðurþings vegna stöðunnar sagði hann að enn væri ekki vitað hversu há sú upphæð er sem sveitarfélagið verður af vegna tekjumissis gegnum útsvarsgreiðslur starfsmanna sem vinna/unnið hafa í Norðurþingi og tengjast Bakka. „Þess ber að geta að útsvarsgreiðslur til sveitarfélagsins enn sem komið eru í takti við fjárhagsáætlun ársins 2020. Ljóst má vera að m.a. hlutabótaleið stjórnvalda sem og ögn bjartari niðurstaða sumarvertíðarinnar í ferðaþjónustu hér á svæðinu hefur hjálpað verulega til hvað þetta varðar,“ segir Kristján í skriflegu svari.

Kristján Þór Magnússon 2020

Umræður hafa staðið yfir í sveitarstjórn um á hvaða forsendum fjárhagsáætlun ársins 2021 verði byggð. „Hvað Bakka varðar og starfsemina þar munum við gera ráð fyrir því að verksmiðjan fari í gang á árinu 2021, en ekki hefur endanlega verið ákveðið nákvæmlega í hvaða mánuði starfsemin muni hefjast í okkar spá. Hið sama á við um rekstraráætlun hafnasjóðs,“ útskýrir Kristján en fer ekki í grafgötur með það að heildartekjumissir sveitarfélagsins verði umtalsverður á þessu ári og því næsta, ekki hvað síst hjá hafnarsjóði, sem og vegna lækkunar tekna úr Jöfnunarsjóði og minni annarra tekna á ýmsum sviðum í rekstrinum. Kristján nefnir þó engar tölur í þessu samhengi.

Gerir ráð fyrir 300-350 mkr. lakari afkomu

„Líklegt er m.v. stöðuna á vinnumarkaði í dag, að útsvarstekjur fari að dragast saman frá og með næsta mánuði og það ástand vari allt eins vel fram á næsta vor. Ljóst er að afkoma Norðurþings verður mun lakari en fjárhagsáætlun ársins 2020 gerir ráð fyrir eða mögulega í kringum 300-350 m.kr. verri niðurstaða en áætlað var á yfirstandandi rekstrarári. Fjárhagsáætlunarvinna sveitarfélagsins mun miða að því að ná niður kostnaði á öllum sviðum þar sem það er hægt, en verja störf og grunnþjónustu sveitarfélagsins eins og kostur er, einfaldlega til að auka ekki á atvinnuleysið sem fyrirséð er að verði allt að 8% hér í sveitarfélaginu í vetur. Ástandið eins og það blasir við mér kallar á eins fjölbreyttar leiðir til hagræðingar og unnt er að finna svo mæta megi þessum tímabundnu erfiðleikum í rekstrinum að einhverju leyti,“ segir Kristján.

Sveitarstjórinn segist þó reyna að halda í bjartsýnina og trúna á að ástandið geti snúist hratt til hins betra þegar Kófið hefur verið sigrað. „Í Norðurþingi eru ýmis teikn á lofti sem ættu vel að getað ýtt undir hagvöxt á svæðinu í framhaldinu. Við munum berjast hart fyrir ýmiskonar uppbyggingu sem jafnvel hyglir undir nú þegar að einhverju leyti (t.d. nýfjárfesting Fiskeldis Austfjarða á Kópaskeri og Rifósi, fyrirhuguð uppbygging nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík),  og ýta undir spennandi hugmyndir að aukinni verðmætasköpun hér á svæðinu (t.d. formun frumkvöðlaseturs á Húsavík, hugmyndir um stórþararæktun, og frekari þróun tækifæra og atvinnusköpunar á Bakka svo eitthvað sé nefnt).“

Vikublaðið spurði eftir því hvaða hagræðingaraðgerðir væru fyrirhugaðar hjá sveitarfélaginu lið fyrir lið og hvaða upphæðir ætti að spara?

„Ekki liggja enn fyrir upplýsingar þannig að tímabært sé að leggja fram lið fyrir lið hvar nákvæmlega hagræðingarkröfurnar muni liggja, enda hafa fyrri umræður fjárhagsáætlunar ekki farið fram. Þetta er stóra verkefni haustsins; að leggja fram trúverðuga, raunhæfa fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 þar sem horft verður fyrst og síðast til þess hvernig sveitarfélagið muni getað haldið sjó í gegnum þetta fárviðri sem covid-faraldurinn hefur sett af stað. Smám saman á næstu vikum mun sú áætlun birtast okkur betur fyrir sjónum. Ég er þess fullviss að við sveitarstjórnarfulltrúar munum róa sameiginlega að því marki,“ stóð í svari Kristjáns.

Vikublaðið óskaði einnig eftir upplýsingum um skuldastöðu PCC BakkiSilicon hf. gagnvart sveitarfélaginu og eða Hafnarsjóði. Þeirri beiðni var synjað eftir að erindið var borið undir fyrirtækið sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Synjunin hefur verið kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.


Athugasemdir

Nýjast