Ásprent hefur keypt vikublaðið Skarp og auglýsingamiðilinn Skrána sem dreift er í Þingeyjarsveit. Bæði blöðin hafa undanfarið verið prentuð í Ásprent eftir að Prentstofan Örk ehf. á Húsavík, í eigu Víðis Péturssonar, lagði upp laupana.
Við höfum átt í góðu og farsælu samstarfi við Víði eftir að hann hætti prentþjónustu á Húsavík og m.a. prentað fyrir hann Skrána og Skarp, auk þess að prenta fyrir fyrrverandi viðskiptavini Arkarinnar. Það var því eðlilegt framhald að við stigum inn þegar Víðir vildi selja, segir G. Ómar Pétursson framkvæmdastjóri Ásprents.
Skráin og Skarpur falla mjög vel að okkar hugmyndafræði og okkar rekstri. Við gefum út sambærilega miðla á Akureyri, Dagskrána og Vikudag. Við þekkjum því vel hversu mikla þýðingu þessir miðlar hafa í nærsamfélaginu og nauðsyn þess að miðla fréttum og upplýsingum til samfélagsins. Í okkar huga er lykilatriði að Skránni og Skarpi sé stýrt af heimamönnum og því höfum við ráðið Heiðar Kristjánsson til að stýra auglýsingasölu og umsjón með Skránni og Jóhannes Sigurjónsson til að stýra Skarpi, eins og verið hefur.
Við sjáum engar breytingar fyrir okkur varðandi Skarp nema í þá átt að efla blaðið enn frekar. Við viljum áfram sjá það sem sjálfstæðan þingeyskan fréttamiðil sem miðlar fréttum og upplýsingum af svæðinu. Við hlökkum til að vinna að uppbyggingu miðlanna á næstu árum og erum þess fullvissir að við munum eiga ánægjulegt og farsælt samstarf við heimamenn. Við munum leggja okkar af mörkum til að efla enn frekar mannlíf á svæðinu og horfum þar sérstaklega til stuðnings við íþrótta, æskulýðs og menningarstarfsemi, segir Ómar.
-þev