Áslaug Ásgeirsdóttir er ötul við kjólasaum

Áslaug á talsvert af kjólum sem hún hefur saumað, á milli 30 og 40 og gengur í þeim við hin ýmsu tæk…
Áslaug á talsvert af kjólum sem hún hefur saumað, á milli 30 og 40 og gengur í þeim við hin ýmsu tækifæri Myndir MÞÞ

Kjólar sem Áslaug Ásgeirsdóttir hefur saumað vöktu óskipta athygli á vorsýningu eldri borgara í Sölku, félagsmiðstöð í Víðilundi nýverið.  Áslaug á talsvert af kjólum sem hún hefur saumað, líklega á milli 30 og 40 og gengur í þeim við hin ýmsu tækifæri. Hún gerir gjarnan nýjan kjól til að klæðast áður en hún fer á tónleika.

„Ég á ekki saumavél sjálf, en byrjaði á að heimsækja Lautina sem er athvarf á Akureyri. Þar er saumavél sem allir geta fengið afnot af. Núna undanfarin ár hef ég sótt félagsmiðstöðina Sölku sem er fyrir eldri borgara og þar er saumavél fyrir alla. Ég fæ líka góða aðstoð,“ segir Áslaug sem sér fremur illa og á í erfiðleikum með að þræða nálinu. „En það eru allir boðnir og búnir að hjálpa mér og það er svo gott að finna það,“ bætir hún við og segir að sams konar aðstoð hafi einnig fengist í Lautinni.

Enginn í eins kjól

Áslaug segir að hún hafi mjög gaman af því að fara á tónleika, það sé hennar líf og yndi og hún reyni að komast eins marga og fjárhagurinn leyfi. „Í búðunum eru mjög margir kjólar alveg eins og ég vildi ekki endilega mæta í kjól eins og aðrir eru í, vildi hafa minn öðruvísi og helst að enginn annar ætti þannig kjól,“ segir hún um upphaf þess að hún hóf að sauma kjóla. „Ég gat þá verið alveg viss um að mæta engum í eins kjól og ég var í.“

Efnið kaupir hún hér og hvar í verslunum sem það selja og stundum fær hún efnisbúta á góðu verði. Eins hefur hún fengið efnið gefins héðan og þaðan. „Það kemur stundum fólk í Víðilund með heilu haldapokana af efni og gefur mér og ég er mjög þakklát fyrir það. Það vita margir af því að ég sauma mikið og ef fólk á eitthvað sem það notar ekki sjálft spyr það hvort það nýtist mér.“

Kjólar við ýmis tilefni

Áslaug á alls kyns kjóla og í mörgum litum. Einn er gulur og sérstakur að því leyti að hún klæðist honum einungis á páskadag. „Ég saumaði eitt sinn kjól þegar Helgi Björns og Reiðmenn vindanna voru að bjarga okkur í miðjum heimsfaraldrinum og fór alltaf í hann þegar dagskráin byrjaði í sjónvarpinu. Hann er með brúnu þema,“ segir hún. Þá fór hún eitt sinn á heiðurstónleikar Ellýjar Vilhjálms og gerið sérstakan kjól af því tilefni. Annan gerði hún fyrir  Villa Vill tónleika. Ellýjarkjólinn er með hvítan grunn og stórum fjólubláum rósum en Villa kjóllinn var saumaður upp úr öðrum eldri kjól.  Áslaug segist stundum taka eldri kjóla og breyta og bæta og þá kemur út nýr kjóll.  Loks nefnir hún einn kjól til sem hún klæðist á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní ef veður er gott. „Ég hef gaman af þessu og það var mikill heiður fyrir mig að fá að sýna kjólana mína,“ segir hún.

 Kjólar sem Áslaug Ásgeirsdóttir hefur saumað vöktu óskipta athygli á vorsýningu eldri borgara í Sölku, félagsmiðstöð í Víðilundi.  Myndir  MÞÞ


Athugasemdir

Nýjast