„Árshátíð fyrir eldra knattspyrnufólk“

Þótt léttleikinn sé í fyrirrúmi á Pollamótinu er alltaf stutt í keppnisskapið.
Þótt léttleikinn sé í fyrirrúmi á Pollamótinu er alltaf stutt í keppnisskapið.

Pollamót Þórs fyrir eldri knattspyrnupilta- og stúlkur á landinu verður haldið í 31. skiptið á Þórssvæðinu á Akureyri um helgina, dagana  6. og 7. júlí. Stefnt er að því að mótið verði sannkölluð fjölskylduhátíð og m.a. verða Hoppukastalar á afgirtu svæði fyrir börn báða dagana. Valdimar Pálsson, framkvæmdastjóri Þórs og fulltrúi í Pollamótsnefnd, býst við fjölda keppenda í ár líkt og undanfarið. „Þetta hafa verið á milli 50-60 lið og við vonumst eftir svipaðri þátttöku. Fjöldinn fer svolítið eftir veðri en þetta gæti verið í kringum 600 gestir sem koma í tengslum við mótið,“ segir Valdimar.

„Sumir eru mættir á HM“

Valdimar segir það vera fastan lið hjá mörgum að taka þátt í Pollamótinu á ári hverju. „Þetta er í raun eins og árshátíð hjá eldra knattspyrnufólki. Fólk er t.d. að hitta gamla félaga sem það spilaði á móti í mörg ár. Þetta er hálfgert „reunion“ hjá mörgum.“ Valdimar segir misjafnt hversu menn taka mótinu alvarlega. „Sumir eru mættir á HM og gera allt til þess að sigra. En flestir vilja einfaldlega hafa gaman af þessu, taka þessu létt, skemmta sér og eiga stund með gömlum vinum,“ segir Valdimar. Keppt er í þremur deildum karla og kvenna.

-þev

Nýjast