Arnaldur sóknarprestur í Glerárkirkju á förum til Noregs

„Ég er bara að pakka niður og við förum fljótlega eftir áramót," segir Arnaldur Bárðarson sóknarprestur í Glerárkirkju en hann ásamt fjölskyldu, eiginkonu og fimm börnum á aldrinum 6 til 19 ára er á förum til Noregs.  Þar hefur hann fengið stöðu sóknarprests í bænum Hemne, rétt sunnan við Þrándheim.  

Hann segir að eitt hafi leitt af öðru, lengi hafi hann hugleitt að taka námsleyfi og halda til útlanda, en kreppan og gríðarlegt gengisfall íslensku krónunnar geri það ekki lengur mögulegt.  „Þá fór ég að skoða aðra kosti, því vissulega get ég viðurkennt að ég er orðinn býsna þreyttur," segir hann.  „Ég var búinn að bíta það í mig að fara um stundarsakir og þótti það súrt í broti að komast ekki, en er mjög ánægður með þessa niðurstöðu."

Arnaldur segir að norska kirkjan bjóði mjög góð starfskjör, fjölskyldan fái stórt og gott húsnæði á góðu verði og þá sé einnig vel passað upp á að ekki skapist óhóflegt starfsálag á sóknarpresta.  Um 3000 íbúar eru  í Hemne, en í sókninni allri er um 5.500 manns.

Arnaldur segir að margt hafi spilað inn í að fjölskyldan tók þessa ákvörðun um að flytja búferlum, hann hafi til dæmis ekki séð fram á að unglingarnir á heimilinu myndu fá vinnu næsta sumar. Þá hafi eiginkonan nýlega lokið meistaranámi í sérkennslufræðum en störf á þeim vettvangi eru af skornum skammti nú í miðri efnahagslægð.  „Í Noregi blasir við okkur allt annar veruleiki og konan hefur þegar fengið fullt starf í sínu fagi, þannig að við hlökkum mikið til að breyta til.  Mótttökur heimamanna, þegar við vorum þar á ferð á dögunum að líta á aðstæður, voru líka stórkostlegar.  Það er líka ánægjulegt tækifæri  fyrir mig að fá taka þátt í störfum norsku systurkirkju okkar í Noregi og verður mikil reynsla," segir Arnaldur.

Hann hefur gengt starfi sóknarprests við Glerárkirkju í 6 ár og segir að vissulega muni hann sakna fólksins. Kreppan og hrunið segir hann setja mikið mark á störf presta nú um stundir og það sé erfitt.  Endalausar neikvæðar fréttir fari illa með sálarlífið. Margir eigi líka í miklum erfiðleikum. Umhverfið og andrúmsloftið ytra sé með öðrum hætti og á jákvæðari nótum. 

Arnaldur s mun taka þátt í jólahaldi í Glerárkirkju en  segja starfi sínu lausu um áramót.  Staðan verður væntanlega auglýst laus til umsóknar fljótlega á nýju ári.

Nýjast