Arnaldur Arnarson með tónleika

Arnaldur Arnarson
Arnaldur Arnarson

Arnaldur Arnarson gítarleikari leikur á síðustu Föstudagsfreistingum vetrarins hjá Tónlistarfélagi Akureyrar 1. apríl kl 12. Arnaldur sem er búsettur í Barcelona kemur með vorblænum til Akureyrar og leikur ljúfa gítartónlist af ýmsu tagi, m.a. eftir Sor, Cassadó, Tansman og Luise Walker. Tónleikarnir eru í samstarfi við MAK og Akureyarstofa er helsti bakhjarl. Miðaverð er 2.000 kr. Miðasala á www.mak.is

Arnaldur Arnarson fæddist í Reykjavík árið 1959 og hóf gítarnám í Svíþjóð tíu ára að aldri. Hann lærði síðan í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Gunnari H. Jónssyni og lauk þar námi vorið 1977. Hann stundaði framhaldsnám í Englandi og á Spáni, þar sem helstu kennarar hans voru Gordon Crosskey, John Williams, George Hadjinikos og José Tomás.

Með sigri í XXI alþjóðlegu "Fernando Sor" gítarkeppninni í Róm 1992 og einleikstónleikum á Listahátíð í Reykjavík sama ár skipaði Arnaldur sér á bekk með fremstu tónlistarmönnum Íslands. Hann hefur margoft komið fram á Íslandi og haldið tónleika í Evrópu, Ástralíu, Bandaríkjunum og Suðurameríku. Arnaldur hefur um árabil kennt gítarleik og verið aðstoðarskólastjóri við Luthier Tónlistar- og dansskólann í Barcelona en hyggst starfa meira á Íslandi næstu misseri. Hann hefur haldið námskeið í tónlistarflutningi víða um heim og setið í dómnefndum í alþjóðlegum tónlistarkeppnum. Upptaka Arnaldar á verkum eftir Jón Ásgeirsson, Johann Sebastian Bach og Fernando Sor hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda á Íslandi og erlendis. (Akureyri.is)

Nýjast