Ármann/Þróttur gaf leikinn

Ekkert varð af leik Þórs og Ármanns/Þróttar í 1. deild karla á Íslandsmótinu í körfuknattleik, sem fram átti að fara á Akureyri í gær. Reykjavíkurliðið gaf leikinn og var Þórsurum dæmdur 20:0 sigur í leiknum. Töluverðrar óánægju gætir í herbúðum Þórs með þessa ákvörðun Ármanns/Þróttar. Þórsarar hafa verið á miklu skriði í deildinni í vetur og unnið alla sína leiki. Á heimasíðu Þórs segir m.a. að því miður hafi þetta verið eitthvað sem menn voru búnir undir að gæti gerst. Lið Ármanns/Þróttar muni væntanlega verða dæmt til þess að greiða einhverja sekt til Körfuknattleikssambands Íslands í refsingu fyrir háttalag sitt. Körfuknattleiksdeild Þórs verður hins vegar af tekjum af þessum sökum sem engir bætir fyrir.

Nýjast