Árlegur vorfundur Landsnets

Landsnet býður til árlegs vorfundar félagsins þriðjudaginn 5. apríl nk., kl. 9-11 á Hilton Reykjavík Nordica. Þar verður fjallað um hlutverk raforku í tengslum við stöðu loftslagsmála á Íslandi og áskoranir varðandi þróun og uppbyggingu raforkuflutningskerfisins.

Á fundinum verður fjallað um þær áskoranir sem Landsnet stendur frammi fyrir varðandi stefnumótun, þróun og uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi, hver staða loftslagsmála er í heiminum og á Íslandi og hvernig Íslendingar geti lagt þar sitt lóð á vogarskálarnar. Einnig verður sjónum beint að orkuskiptum í íslenskum sjávarútvegi og hvernig megi draga enn frekar úr losun gróðurhúsaloftegunda til framtíðar í greininni.

Fundurinn hefst með ávarpi iðnaðarráðherra, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Aðrir ræðumenn eru Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Landsnets, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, Guðni Elísson, prófessor við Háskóla Íslands og Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Fundarstjórn annast Edda Hermannsdóttir.

Allir velkomnir 
Vorfundur Landsnets er öllum opinn og það er von félagsins að sem flestir sjái sér fært að mæta, hlýða á framsöguerindi og taka þátt í umræðum. Boðið verður upp á morgunhressingu fyrir fundinn, frá kl. 8:30, og meðan á honum stendur. 

Þátttökuskráning er hafin á heimasíðu Landsnets og einnig er hægt að láta vita af þátttöku í síma 563 9300.

Þeim sem komast ekki á fundinn er bent á að hægt verður að fylgjast með beinni útsendingu á heimasíðu Landsnets og á mbl.is. Jafnframt verður hægt er að koma spurningum til frummælenda á framfæri á twitter undir #landsnet. (landsnet.is)

Dagskrá fundarins. 

Nýjast