Arctic Mayors samstarfið formfest á Akureyri

Samstarfið var undirritað í Hofi í morgun.
Samstarfið var undirritað í Hofi í morgun.

Fulltrúar nokkurra af nyrstu byggðum heims undirrituðu stofnskjal um formlega samvinnu undir yfirskriftinni Arctic Mayors í Menningarhúsinu Hofi í morgun. Þannig verður vettvangur bæjar- og borgarstjóra á norðurslóðum loks formfestur. Markmiðið með þessum vettvangi er að ljá sveitarstjórnum á norðurslóðum, og þar með íbúum, rödd í framtíðarþróun svæðisins, segir í tilkynningu.

Í núverandi stjórnskipulagi á norðurslóðum er ekki gert ráð fyrir kerfisbundinni aðkomu nærsamfélaga að mótun stefnu um svæðið. Þar af leiðandi eru ákvarðanir oft teknar í órafjarlægð.

„Bæjar- og borgarstjórar innan norðurslóða sjá ástæðu og þörf fyrir skipulagðan samstarfsvettvang í því skyni að standa vörð um hagsmuni íbúa. Samfélög í norðri standa mörg hver frammi fyrir sameiginlegum áskorunum og geta notið góðs af norrænni samvinnu á sveitarstjórnarstigi. Leiðarstefið á vettvangi Arctic Mayors er að leiðtogar svæðanna eigi aðild að öllum stigum stefnumótunar og ákvarðanatöku.

Þannig verði tryggt að gildi, markmið og hagsmunir fólksins séu í forgrunni, svo unnt sé að bæta lífsgæði þeirra sem búa á norðurslóðum, styðja við sjálfbæra þróun og þróttmikil samfélög. Þessu markmiði verður náð með skipulögðum samstarfsvettvangi og þekkingarmiðlun bæjar- og borgarstjóra sem og innlendra, svæðisbundinna og alþjóðlegra stofnana,“ segir um Arctic Mayors.


Athugasemdir

Nýjast