Áramótahugleiðing

Margrét Kristín Helgadóttir skrifar  Áramótin eru einn besti tími ársins. Þegar að gamla árið er að klárast og það nýja tekur við. Maður byrjar einhvernveginn á nýrri byrjun við hver áramót. Á þessu ári ætla ég að vera betri manneskja, eyða meiri tíma með fjölskyldunni, vinna heimavinnuna mína betur og síðast en ekki síst fara í heilsuátak til að komast í kjólinn fyrir næstu áramót sem ég komst ekki í, í ár.  Það að vera umvafinn fólkinu sem maður elskar á slíkum tímamótum er ómetanlegt. Að rifja upp liðna árið og fá áminningar um að heilsuátakarheitið sem ég strengdi síðustu áramót hafi ekki farið sem skyldi. Maður rennur ósjálfrátt huganum að þeim sem að eru ekki jafn heppnir. Þeir sem að eiga engan að og hafa engan sérstakan samastað yfir hátíðirnar. Það eru fleiri en maður grunar.  Margir einstaklingar hafa brennt allar brýr að baki sér með þeim fylgidjöflum sem elta þá sem eru langt leiddir í fíkniefnaneyslu. Bara núna á annan í jólum heyrði ég af ungmennum sem að höfðu brotist inn á jóladag, í verslun hér í bæ. Það fylgdi nú ekki sögunni hvort að þeir einstaklingar hafi verið í einhverskonar vímuefnanotkun en bara það að heyra af þessu var nóg til að leiða hugann að öllum þeim fjölda innbrota og líkamsárása sem maður hefur heyrt um og hafa verið tengd fíkniefnaneyslu. En að hugsa sér að fá fregnir af því að barnið manns hafi tekið þátt í innbroti og það á sjálfan jóladag. Það getur ekki verið góð lífsreynsla. Þessir einstaklingar hafa þó að öllum líkindum ekki setið inni nema eina nótt og reynslan hefur sýnt að margir hverjir fara jafnvel í annað innbrot kvöldið sem þeim er sleppt. Auðvitað kennir neyðin naktri konu að spinna, eins og einhversstaðar var sagt, og ég trúi ekki öðru en að einstaklingar sem að gera svona lagað séu að gera það í tómri örvæntingu og örvinglun. Ef að það að ræna verslun er fýsilegur kostur þá hlýtur hinn kosturinn að vera verri eða einfaldlega ekki til staðar.  Við þurfum að hlúa betur að ungmennum okkar. Við þurfum einhvernvegin að koma í veg fyrir það að þjófnaðir séu kostur til að byrja með og það hljótum við að gera með því að útrýma vímuefnaneyslu ungmenna. Ómögulegt, hugsar einhver. En þó ekki ógerlegt. Við megum ekki gleyma né vanmeta þá undirstöðuþættir sem við höfum. Það er enn ólöglegt að drekka áfengi ef þú ert yngri en 20 ára, það er enn ólöglegt að vera með áfengi á almannafæri og við höfum útivistarreglurnar. Þetta eru dæmi um lög og reglur sem eru til staðar en virðast gleymast en mega það einmitt ekki. Mörgum finnast þarna ekki verið að taka á það alvarlegum málum en það má ekki gleymast að flest allir sem fara í meðferð vegna fíkniefnavanda byrjuðu á sínum tíma að drekka bjór. Það byrja fæstir á því að stinga nálinni í handlegginn.  

Nýjast