Ár kattarins

Egill P. Egilsson, ritstjóri
Egill P. Egilsson, ritstjóri

Leiðari Vikublaðsins


 

Kattafárið mikla á Akureyri hefði getað verið prýðilegur titill á nýja Tinna-bók en er þess í stað raunsönn lýsing á umræðunni undanfarið. Það þarf varla að tíunda það nánar en hér er að sjálfsögðu átt við viðbrögð við því að bæjarstjórn Akureyrar samþykkti fyrir skemmstu að banna lausagöngu katta frá og með árinu 2025; og fara þannig að fordæmi nágrannasveitarfélagsins Norðurþings en þar hefur slíkt bann verið við lýði um árabil.

Viðbrögð við þessum fréttum hafa vart farið framhjá nokkurri manneskju. Kattaeigendur, dýralæknar, pólitíkusar og meira að segja Gísli Marteinn; hafa keppst við að hvæsa vanþóknun sinni á banninu yfir samfélagsmiðla. Enda hafa fréttamiðlar um allt land verið á akkorði við að skrúfa frá krananum og flytja okkur fréttir af kattaskoðunum fólks. Meira að segja Brynjar Níelsson hafði skoðun á kattamálinu. Hann er enda almennt á móti boðum og bönnum eins og sjálfstæðismönnum er von og vísa….svona flestra!

Umræðan hefur verið pólaríseruð svo ég grípi nú í vinsælan frasa. Þeir sem ekki eru á móti lausagöngubanninu hafa stigið fram og urrað inn í umræðuna: „Þótt fyrr hefði verið.“

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr kattamálinu svakalega. Sjálfur kann ég ágætlega við að vita af köttum í umhverfi mínu en það sem vekur athygli mína í þessu máli er einmitt hversu mikið pláss þessi afgreiðsla bæjarstjórnar hefur fengið í umræðunni.

Á sama tíma bárust fréttir af því að börn með hegðunarvanda væru lokuð inni í gluggalausum rýmum í grunnskólum á Íslandi (Nei, alls ekki öllum). Þó að það grafalvarlega mál hafi vissulega fengið pláss á fréttamiðlunum þá bliknaði það í samanburði við kattamálið gríðarlega. Plássið á samfélagsmiðlum var tekið fyrir garg og hvæs yfir frelsisskerðingu katta á Akureyri.

Hvar erum við stödd sem samfélag þar sem fyrirhugað bann við lausagöngu katta vekur upp miklu meiri tilfinningar en úrræðaleysi grunnskóla landsins gagnvart börnum með sérþarfir. Hvar eru áhrifavaldarnir, þáttarstjórnendurnir, pólitíkusarnir, og hinir almennu borgarar. Af hverju heyrir maður ekki þessa aðila hvæsa inn í alrýmið á ríkið að koma betur til móts við sveitarfélögin og gera þeim kleift að hlúa betur að börnunum okkar. Það er jú í skólanum sem þau verja stórum hluta hversdagsins.

Þangað til reikna ég með að vikan á Instagram verði áfram mest lesna frétt vikunnar á vefmiðlum.

 


Nýjast