Hættu þessu bulli, þú veist að þetta er rétt hjá mér. Þetta er svona og hættu nú!
Hvernig myndi þér líða ef vinnufélagi eða maki talaði við þig á þennan hátt? Hvaða tilfinningum myndir þú finna fyrir? Kannski reiði, depurð, særindum, brostnum vonum, ef til vill skömm. En hvernig heldur þú að barninu þínu liði ef þú talar við það á þennan hátt?
Barnið: Já en það mega sko allir vaka fram yfir miðnætti nema ég! Foreldri: Ég nenni ekki að hlusta á þetta. Ég veit hvað er best fyrir þig. Slökktu á tölvunni. Hlýddu bara.
Við þekkjum flest sambærilegar aðstæður eins og hér að ofan, foreldrar setja reglurnar og börnin þurfa að fylgja þeim. Börn þurfa mörk, það veitir þeim öryggi og oft á tíðum vita foreldrar hvað er best fyrir þau, hafa jafnvel lent sjálf í sambærilegum aðstæðum, gert mistök og lært af þeim. Þau hafa því sannarlega meiri upplýsingar til rökstuðnings á máli sínu og hafa árafjöldann framyfir þann yngri. En samtöl eins og þessi geta farið þveröfugt ofan í börnin, þau geta orðið ósátt, sýnt mótþróa, vilja eitthvað annað eða meira og það getur leitt til togstreitu á heimilinu, kannski hávaða rifrildis. Í þessum aðstæðum getur upplifunin verið sú að foreldrið ,,vinnur” og barnið ,,tapar”. Ef börn upplifa dag eftir dag að það ,,tapi“ í samskiptum við foreldra sína getur það reynst því erfitt og það getur upplifað að ekki sé hlustað á þarfir þess og langanir.
Foreldrar geta því mögulega valið heppilegri og jafnvel árangursríkari leiðir til þess að nálgast börnin og setja mörk en á sama tíma stuðlað að því að börnin upplifi skilning og virðingu.
Nýtt sjónarhorn á samskipti við börnin okkar
Hvernig leysum við ágreiningsmál t.d. við maka eða vinnufélaga? Við ræðum málin og reynum að komast að sameiginlegri niðurstöðu sem allir málsaðilar eru sáttir við. Hvað gæti breyst ef við notuðum sambærilega nálgun í samskiptum við börnin okkar?
Þá myndu foreldrar og börn vinna saman að lausn. Börnin fengju útskýringar á aðstæðum og ástæðum foreldra sinna, segðu frá eigin skoðunum og í sameiningu kæmust þau að niðurstöðu út frá rökum í samtalinu. Þegar samkomulag næst þurfa foreldrar að treysta börnum sínum til þess að fylgja eigin viðmiðum og reglum. Þessi nálgun getur stuðlað að auknu hugmyndaflugi barna, getu þeirra til þess að leysa ágreining og aukið líkur á skuldbindingu, ef þau fá að taka þátt í lausnaleitinni. Hún er vissulega tímafrekari en nálgunin hér í upphafi pistils en ef góður tími er settur í undirbúningsvinnuna getur uppskeran orðið góð.
Lykilatriði í þessum samskiptum er virðing og að börn upplifi að þau hafi rödd - að það sem þau segi skipti máli. Í stað þess að hafa væntingar um að samtalið muni fara á þann veg sem foreldrarnir vilja er mikilvægt að vera forvitinn og opinn fyrir hugmyndum barnanna. Allir eru með jafn mikil völd, það er enginn æðri öðrum. Foreldrar halda áfram að vera leiðbeinandi en sitja ekki ein við stjórnvölinn. Sé markvisst unnið að því að tileinka sér þessa nálgun geta orðið breytingar á andrúmsloftinu á heimilinu og togstreita minnkað.
Þegar við tileinkum okkur nýtt sjónarhorn á uppeldið er tilvalið að spyrja sig í lok samtals: Er einhver að ,,tapa“ eftir þessi samskipti? Ef svarið er já er gott fyrir foreldrana að íhuga og jafnvel hefja nýtt samtal með barninu um hvað hefði mátt betur fara. Því ef einhver tapar í samskiptunum eru þá ekki allir að tapa?
Höfundur er foreldra- og uppeldisfræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni