Frá sveitarstjórnarfundi í Norðurþingi, upplýsingar um atvinnumál.

Húsavík      Mynd nordurthing.is
Húsavík Mynd nordurthing.is

Frá því snemma á þessu ári hefur legið fyrir að rekstur PCC BakkiSilicon væri erfiður vegna ástands á heimsmarkaði með kísilmálm. Það hefur leitt til rekstrarstöðvunar og uppsagna starfsfólks þar sem um 130 manns hafa misst vinnuna það sem af er þessu ári.

Rekstrarstöðvunin hefur víðtæk áhrif á starfsemi verktaka- og þjónustufyrirtækja en um 20 fyrirtæki í Norðurþingi hafa beinan hag af því að verksmiðjan sé í framleiðslu.

Norðurþing hefur greint áhrif rekstrarstöðvunarinnar á sveitarsjóð og er tekjusamdráttur útsvarstekna áætlaður um 3-400 milljónir króna sem jafngildir 12-14% samdrætti m.v. árið 2025. Áhrif á Hafnasjóð Norðurþings eru enn þyngri en áætlað er að sjóðurinn missi 60-70% tekna sinna vegna rekstrarstöðvunar PCC og stöðvun strandsiglinga í kjölfarið.

Sveitarstjórn hefur það sem af er ári átt marga upplýsingafundi og mjög gott samtal við þingmenn kjördæmisins, fastanefndir Alþingis og ráðherra í ríkisstjórn Íslands um stöðu mála. Á síðasta vorþingi sat forsvarsfólk sveitarfélagsins ásamt forstjóra PCC fundi með atvinnuveganefnd og efnahags-og viðskiptanefnd Alþingis til að upplýsa um stöðuna og fara yfir mögulegt viðbragð af hálfu stjórnvalda. Í haust hafa sömu aðilar fundað bæði með fjármála- og efnahagsráðherra og utanríkisráðherra til að fylgja málum eftir fyrir PCC. Einnig var fundað með þingmönnum kjördæmisins í kjördæmaviku í lok september.

Í júní áttu sveitarstjórar á SSNE svæðinu, ásamt framkvæmdastjóra samtakanna, fund með forsætisráðherra þar sem farið var yfir áhrif rekstrarvanda PCC á Norðurþing og atvinnumál á SSNE svæðinu. Í framhaldi af þeim fundi skipaði forsætisráðherra starfshóp fimm ráðuneyta með það hlutverk að kortleggja stöðu atvinnumála á Húsavík og nágrenni vegna tilkynninga um mögulega rekstrarstöðvun kísilvers PCC á Bakka. Starfshópnum var einnig ætlað að koma með tillögur að mögulegum viðbrögðum stjórnvalda til bæði skemmri og lengri tíma með hliðsjón af ólíkum sviðsmyndum. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili forsætisráðherra álitsgerð sinni núna um miðjan október en samvinna við hópinn hefur verið mjög góð, mikil upplýsingagjöf og kortlagning á stöðu mála.

Sveitarstjórn hefur allt þetta kjörtímabil lagt mikla áherslu á grænan iðngarð á Bakka. Sú vinna hefur skilað góðri kortlagningu á gæðum svæðisins sem hefur leitt af sér mikinn áhuga fyrirtækja á iðnaðarsvæðinu. Sveitarstjórn samþykkti viljayfirlýsingu við gagnaver á síðasta fundi sínum. Auk þess er unnið að viljayfirlýsingu um landeldi á Bakka og rannsóknum á svæðinu kringum Bakka fyrir vindorkuver, Carbfix, Heidelberg og Steypustöðina. Þá er til skoðunar álúrvinnsluverkefni, rafeldsneytisframleiðsla, stórþaravinnsla Íslandsþara og fleiri verkefni styttra á veg komin. Til að meta stöðuna og tryggja þá innviði sem þarf til þessara verkefna hefur t.d. verið fundað með Landsvirkjun, Landsneti, Farice, Vegagerðinni, SSNE og Eimi.

Rekstrarstöðvun PCC hefur mikil áhrif á rekstur Norðurþings, fyrirtækja og félaga á svæðinu, samfélagið í Norðurþingi og lífsviðurværi fjölskyldna. Sveitarstjórn hefur fullan skilning á alvarleika stöðunnar sem upp er komin en ítrekar að það eru mikil verðmæti fólgin í þeirri vinnu sem sveitarstjórn hefur lagt áherslu á síðustu mánuði og ár í tengslum við grænan iðngarð á Bakka. Sveitarstjórn mun áfram berjast fyrir tilveru verksmiðju PCC BakkiSilicon en einnig leggja kapp á að styrkja stoðir atvinnulífsins með því að fjölga fyrirtækjum og nýjum atvinnutækifærum í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn vinnur úr erfiðri stöðu af ábyrgð, með samvinnu, jákvæða nálgun og bjartsýni fyrir framtíð samfélagsins að leiðarljósi.

Nýjast