Dagana 2.-3. október sl. fór fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga fram í Reykjavík. Ráðstefnan er árleg og alltaf haldin í Reykjavík en gaman væri að breyta einhvern tíma til og bjóða t.d. upp á Akureyri. Uppselt var á ráðstefnuna og sátu hana um 500 manns.
Þátttaka sveitarfélaga er með ýmsum hætti en flest eru að senda sína sveitarstjórnarfulltrúa eða fulltrúa úr byggðarráðum. Einnig fara flestir sveitarstjórar, stjórnsýslu- og fjármálastjórar sveitarfélaga á þessa ráðstefnu.
Dagskrá ráðstefnunnar í ár var yfirgripsmikil að venju. Á fimmtudeginum voru erindi um fjármál og fjárfestingargetu sveitarfélaga, fjárfestingaþörf hafnainnviða, úrræði í hávaxtaumhverfi og virðismatsvegferð vegna kjarasamninga kennara. Fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra fluttu ávarp og svo var pallborð með ráðherrum og formönnum eða forsvarsfólki stjórnmálaflokkanna á Alþingi. Einnig var boðið upp á samtalspallborð með nokkrum sveitarstjórum og fyrirspurnir úr sal. Á föstudeginum var hægt að velja um málstofur hvar erindin hvörfuðust um fjármál, rekstur og áhættustýringu annars vegar og umhverfið, velferð og menntun hins vegar.
Ráðstefnunni er streymt og gæti því einhver talið það mesta óþarfa að senda kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga utan af landi til Reykjavíkur til þátttöku. En ráðstefnan er svo miklu meira en bara þessir fundir og málstofur. Í hverri kaffipásu eða matarhléi er tíminn nýttur til samtala við kollega, samanburðar á rekstri sveitarfélaga, speglun á aðstæðum og að mynda tengsl við aðra kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga og Sambandsins. Ráðherrar og þingmenn eru á staðnum til skrafs og ráðagerða, upplýsingagjafar, samtals og brýningar. Kjörnir fulltrúar ná fundum og samverustund með sínu fólki innan sinna stjórnmálaflokka, þingmönnum og ráðherrum. Það eru allar stundir nýttar til hins ýtrasta, meira að segja kvöldið og tíminn á flugvellinum á leið til og frá ráðstefnu, þá er spjallað við kollega um verkefnin og þær áskoranir sem sveitarfélögin standa frammi fyrir.
Það kostar að senda fulltrúa á ráðstefnuna, sér í lagi fyrir sveitarfélög fjarri höfuðborginni. Akstur eða flug, hótel og ráðstefnugjald en mér finnst þeim peningum vel varið fyrir sveitarfélagið. Kjörnu fulltrúarnir kosta líka miklu til sjálfir til að taka þátt. Þau þurfa að taka sér frí frá sinni reglulegu vinnu og verða fyrir tekjutapi. Og séu þau í eigin rekstri þá verða bæði þau og fyrirtækið fyrir tekjutapi þessa daga.
Líta má á fjármálaráðstefnuna sem endurmenntun fyrir þau sem sækja hana og oft tækifæri til að minna sig á að það er gaman að taka þátt í stjórnmálum. Ávinningurinn fyrir kjörna fulltrúa, starfsfólk sveitarfélaga og sveitarfélagið sjálft er ótvíræður að mínu mati.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Norðurþingi