Hjá Nemendaráðgjöf HA er boðið upp á náms- og starfsráðgjöf, sálfræðiþjónustu, fjölbreytt og hagnýt námskeið ásamt ráðgjöf vegna úrræða í námi og prófum svo fátt eitt sé nefnt. Náms- og starfsráðgjafar og sálfræðingur starfa í þágu stúdenta og leggja þau áherslu á góða og aðgengilega þjónustu þar sem ráðgjöf er sniðin að þörfum hvers og eins. Tryggt er að allir stúdentar HA hafi aðgengi að þjónustu Nemendaráðgjafar og hafa stúdentar alltaf val um að nýta sér þjónustuna á staðnum, rafrænt eða í gegnum síma. Þá stendur þjónusta Nemendaráðgjafar einnig til boða fyrir þau sem hafa hug á námi við Háskólann á Akureyri.
Nemendaráðgjöf samanstendur af öflugum og samheldnum hópi starfsfólks sem hefur fjölbreytta þekkingu og reynslu. Í hópnum eru þrír náms- og starfsráðgjafar, Aníta, Arna og María og auk þeirra er einn sálfræðingur sem heitir Einar. María er forstöðumaður Nemendaráðgjafar og gefur lesendum nánari innsýn í þjónustuna.
Öll velkomin
„Starfið hjá Nemendaráðgjöf er mjög fjölbreytt. Dæmi um mín verkefni er að styðja við stúdenta í námi, veita upplýsingar um nám og störf, ráðgjöf varðandi námsval, námsframvindu, áhugasvið og góðar námsvenjur,“ útskýrir María sem leggur áherslu á að öll geti leitað til Nemendaráðgjafar og ekki þurfi sérstaka ástæðu til þess. Þá geta framhaldsskólanemar sem og aðrir einnig nýtt sér þjónustu Nemendaráðgjafar ef þeir eru að velta fyrir sér námi við HA. „Við tökum vel á móti þér á staðnum, rafrænt eða í síma. Hægt er að bóka viðtal hjá ráðgjafa eða sálfræðingi í gegnum bókunarsíðuna okkar sem má finna á vef háskólans, unak.is.“
María Jónsdóttir forstöðumaður Nemendaráðgjafar
Gott fólk og tækifæri í hverju horni
María segir það skemmtilegasta í starfinu vera að vinna með fólki við að finna sína leið. „Áskoranir geta verið margvíslegar og persónulegir sigrar eru gull,“ segir María. Hún segir að HA sé samfélag sem búi yfir góðu fólki og tækifærum í hverju horni.
Eins og fram hefur komið í fréttum hafa aldrei fleiri stúdentar stundað nám við HA en nú og er nýnemahópurinn í ár sá fjölmennasti frá upphafi. Nemendaráðgjöf hefur síðustu ár haldið úti síðunni Námstækni í HA á Canvas, kennslukerfi HA, sem er opið öllum stúdentum. „Þar má finna bæði námskeið í námstækni og prófkvíðanámskeið. Einnig bjóðum við upp á örfyrirlestra og námskeið, til dæmis um styrkleika og vítahring frestunar. Þá erum við einnig með hjálplega síðu á vef háskólans sem nefnist Bjargir en þar má finna eitt og annað sem getur hjálpað til við námið. Þar að auki heldur Einar sálfræðingur reglulega hópnámskeið í hugrænni atferlismeðferð (HAM) sem eru auglýst sérstaklega,“ útskýrir María.
Að lokum ítrekar María að vel sé tekið á móti öllum sem vilja koma í spjall til Nemendaráðgjafar. „Ef þið hafið einhverjar spurningar eða vangaveltur, kíkið við hjá okkur eða hafið samband, við erum til staðar fyrir ykkur og alltaf tilbúin í spjall.“