23. febrúar, 2007 - 17:29
Fréttir
Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi og Markaðsstofa Austurlands kynntu sameiginlega ferðamöguleika á Norðurlandi og Austurlandi í Kaupmannahöfn í vikunni. Um 20 aðilar úr ferðaþjónustu í þessum landshlutum tóku höndum saman við kynningu á nýjum valkostum fyrir ferðamenn tengda beinu flugi Iceland Express til Akureyrar og Egilsstaða en flogið verður fjórum sinnum í viku til þessara staða næsta sumar. Kynningin var unnin í samstarfi við Ferðamálastofu Íslands og Iceland Express. Boðið var um 70 sérvöldum ferðaskrifstofum og fjölmiðlamönnum, aðallega frá Kaupmannahöfn en einnig frá Malmö í Svíþjóð. Það var samdóma álit þeirra sem að þessari kynningu stóðu að hún hafi í alla staði heppnast vel og samstarfið reynst mjög ánægjulegt. Það er von ráðamanna Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi og Markaðsstofu Austurlands að þetta fyrsta alvöru samstarfsverkefni sé einungis fyrsta skrefið í markaðssamstarfi þessara landshluta. Sameiginlegir hagsmunir eru fjölmargir og því mikil bjartsýni um framhaldið.