Ánægðir eldri borgarar í Snælandi

Dögg Káradóttir félagsmálastjóri afhenti Önnu Rúnu blómvönd í tilefni dagsins. Mynd: JS
Dögg Káradóttir félagsmálastjóri afhenti Önnu Rúnu blómvönd í tilefni dagsins. Mynd: JS

 

Félag eldri borgara á Húsavík og nágrenni tók í notkun nýja félagsaðstöðu í Snælandi á bóndadaginn, 22. janúar s.l. Áður var félagið með aðstöðu í Bjarnahúsinu, sem var fremur óhentug,  ekki síst hvað aðgengi varðar. Neðri hæðin í Snælandi er í eigu Sjálfsbjargar, Norðurþing hefur leigt aðstöðuna um skeið, fyrst fyrir Setrið og nú fyrir Félag aldraðra.

„Við vorum búin að leita lengi að heppilegri aðstöðu fyrir félagið og erum bara himinsæl með þessa lendingu. Heilmikið hefur verið gert fyrir húsnæðið, þar lögðu margir gjörva hönd á plóginn í sjálfboðavinnu og þetta er orðið voða vistlegt hjá okkur og raunar stórglæsilegt, eins og þú sérð.“ Sagði Anna Sigrún Mikaelsdóttir, formaður Félags aldraðra. Og notaði um leið tækifærið og bauð blaðamanni kurteislega að ganga í félagið, eins og hann hefur nú aldur og þroska til, og verða þar með meðlimur númer 264.

Anna formaður ávarpaði félaga og gesti og gerði grein fyrir húsnæðinu og framkvæmdum  þar að undanförnu. Dögg Káradóttir félagsmálastjóri Norðurþings afhenti formanni blómvönd og Eiður á Hallbjarnarstöðum lék undir fjöldasöng á nikkuna.

Aðstaðan í Snælandi verður opin alla virka daga klukkan 13 til 16. Þar verða einnig fundir stjórnar og aðrir minni fundir haldnir, en aðalfundir félagsins eru yfirleitt það fjölsóttir að þeir verða áfram í salnum í Miðhvammi.  „Ég vil hvetja félaga til að vera duglega að líta inn til að spjalla og njóta samvista, hér verður alltaf einhver til staðar og heitt á könnunni.“ Sagði Anna Rúna að lokum.  JS

Nýjast