"Án alls þessa fólks má Akureyri sín lítils"

Ólína Freysteinsdóttir
Ólína Freysteinsdóttir

Akureyri hefur fóstrað mig og mína frá 1993 og hér er gott að búa. Nú í vetur eins og stundum áður hefur verið leitað til mín og ég beðin að starfa og sitja á lista hjá stjórnmálaflokki. Ég hef sagt nei hingað til en nú er tími til kominn.  Ekkert breytist af sjálfu sér, við erum samfélagið og samfélagið erum við. Allir sem þekkja mig vita að ég er örlítið til vinstri. Og ástæðan er einföld, ég er samfélagshyggjumanneskja.  Einn fyrir alla og allir fyrir einn „fandalaggahoj“, eins og segir í Ávaxtakörfunni. 

Ég er hrifin af nýjum listum, ég fylgdist með ágætum L-lista fyrir fjórum árum í gegnum kaffiheimsóknir mannsins míns og Nettóferðirnar tóku rúman klukkutíma. L-listinn hefur staðið sig ágætlega. Nú brýst fram á sjónarsviðið nýr flokkur sem mun örugglega standa sig vel. Ég spyr sjálfa mig af hverju ég hentist ekki á nýjan lista; nýtt blóð, engir gamlir draugar í farteskinu. Ég svara því fyrir sjálfa mig. Og svo ég vitni nú aftur í Ávaxtakörfuna; af því ég veit ekki hvort gulræturnar verði settar í mygluholuna og þekki ekki ananasinn.

Ég stökk í faðm Samfylkingarinnar því ég veit hverjar línurnar eru, ég get treyst því að hann stendur fyrir jöfnuð, þeir sem eiga meira, borga meira. Þeir sem þurfa meira, fá meira.   Af því kýs ég ekki sjálfstæðisflokkinn. Stundum vildi ég raunar óska að ég væri sjálfstæðiskona, slagorðin eru svo flott, einstaklingsfrelsi og jafnrétti. Málið er að ég átta mig bara ekki á hvar þessi lína liggur. Þetta frelsi virðist svo oft á kostnað annarra. Eins og í hruninu, sem var ekki hrun heldur bara óheppileg staða markaðarins í útlöndum. Framsókn nefni ég ekki enda komin af góðu framsóknarfólki austan af fjörðum. Ég held frekast að þeir hafi villst í þokunni og forvitnilegt sjá hvað gerist með hlýnun sjávar.

Þetta er nú allt saman hér að ofan góðlátlegt grín.  En hvað ætli sé þá efst í huga þessarar konu austan af fjörðum, ættlausri í þessum dásamlega bæ. Það er fólkið sem heldur utan um samfélagið okkar og hefur verið mér og mínum svo gott. Það er fólkið sem hefur umvafið mig og börnin mín. Starfsfólk heilsugæslu, leik-, grunn- og tónlistarskóla, dagmæður, starfsmenn í þjónustu á sundstöðum, íþróttamannvirkjum, á bókasafninu, ljósmæður, hjúkrunarfæðingar og heilsugæslulæknar. Þeir sem sinna snjómokstri, halda niðurföllum opnum, sjá um götulýsingu, taka ruslið, keyra strætisvagna, ég get lengi talið. Því tel ég mikilvægast af öllu að Akureyrarbær sem vinnuveitandi bæti það umhverfi sem hann býður starfsmönnum sínum uppá og mikið hefur mætt á síðustu ár. Án alls þessa fólks má Akureyri sín lítils.  Á næsta kjörtímabili á bæjarstjórn að sýna í verki að mannauður  er mikilvægasti fjársjóður bæjarfélagsins.

Ólína Freysteinsdóttir, verkefnastjóri og fjölskylduráðgjafi.

Ólína skipar sjötta sæti framboðslista Samfylkingarinnar á Akureyri

Nýjast