Amtsbókasafnið ekki bara bækur

Börn á sumarlestrarnámskeiði sáðu undir leiðsögn Jóhanns Thorarensen en hann kann vel til verka í þe…
Börn á sumarlestrarnámskeiði sáðu undir leiðsögn Jóhanns Thorarensen en hann kann vel til verka í þessum efnum Myndir Facebooksíða Amtsbókasafnsins

Það er óhætt að segja að starfsfólkið á Amtsbókasafninu á Akureyri sé fullkomlega ófeimið við að fara út fyrir hefðbundið starfssvið bókasafna og tekst þeim með því að auðga starfið mjög.

Já Amtið okkar er ekki bara bækur um Bob Moran og  Lottu í Ólátagarði eða hvað þær hétu nú allar söguhetjur æsku þess sem hér pikkar inn.  

Fatamarkaður er  á safninu, frískápur  fyrir utan svo fátt sé nefnt og nú það nýjasta sem er ótrúlega sniðugt og þau kalla samfélagsgarður.

Á Facebooksíðu þeirra  segja þau betur frá þessari nýjustu viðbót  við starfsemi þeirra.

,,Á sólríka útisvæðinu okkar bak við hús erum við að koma upp litlum samfélagsgarði. Þar verða ræktaðar ýmsar mat- og kryddjurtir og er öllum frjálst að gæða sér á og grípa með sér snarl í heimsóknum sínum á bókasafnið.

Ræktunin er í afgangs pvc-rörum sem við fengum hjá Norðurorka hf. og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir!

Börn á sumarlestrarnámskeiði sáðu fyrir spínati og gróðursettu fyrstu plönturnar í dag undir handleiðslu Jóhanns Thorarensen: grænkál, graslauk og jarðarber. Börnin fengu svo að skreyta kerin sem þau sáðu í. Næstu tvær vikur koma ný börn á sumarlestrarnámskeið sem einnig munu gróðursetja í kerin. Þegar líður á sumarið vonumst við til þess að hér verði kominn blómlegur matjurtagarður sem gestir safnsins geta hugað að í sameiningu og nýtt sér uppskeruna“

 

 


Athugasemdir

Nýjast