Alvarleg staða fyrir sjávarútvegsnám
Á sama tíma og áætlað er að flytja Fiskistofu til Akureyrar hefur dregið verulega úr starfsemi annarra sjávarútvegsstofnana á svæðinu. Bæði Hafrannsóknarstofnun og Matís hafa minnkað sína starfsemi og þá er framtíð Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar við Háskólann á Akureyri í óvissu. Miðstöðin gæti lagst niður um áramótin að óbreyttu. Allar þrjár stofnanirnar hafa aðsetur á Borgum en þar hefur há húsaleiga haft áhrif á starfsemina.
Matís er búið að loka rannsóknarstofum sínum á Borgum vegna hárrar húsaleigu og óvíst um hvernig hún ætlar að haga sinni starfsemi á svæðinu í framtíðinni. Þá er útibústjóri Hafró á svæðinu hættur og ekki búið að ráða neinn í staðinn.
Hreiðar Þór Valtýsson, lektor í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri og forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar, segir ríka ástæðu til þess að hafa áhyggjur af þessari þróun, þá ekki síst með tilliti til sjávarútvegsnámsins í HA sem hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár.
-þev
Nánar er fjallað um málið í prentútgáfu Vikudags