Alþjóðlega krullumótið Ice Cup hófst í Skautahöllinni á Akureyri í gær og var keppni fram haldið í dag. Mótinu lýkur á morgun laugardag og hefjast úrslitaleikirnir kl. 14.00. Mjög stemmning hefur verið í Skautahöllinni og keppnin jöfn og skemmtileg. Fjórtán lið taka þátt, þar af þrjú bandarísk. Þetta er í níunda skiptið sem Krulludeild Skautafélags Akureyrar stendur fyrir þessu móti, en venjan hefur verið ljúka vertíðinni með þessum hætti á hverju ári.
Að þessu sinni fékk Krulludeildin styrk frá Alþjóða krullusambandinu til að fá hingað til lands skoskan ísgerðarmann, Mark Callan, sem er á meðal þeirra fremstu í heiminum á sínu sviði og með mikla reynslu af vinnu við krullusvell á hinum ýmsu stórmótum, svo sem á HM, EM, kanadíska meistaramótinu og fleiri slíkum. Aðstæður í Skautahöllinni, þar sem krullufólk deilir svellinu með skautafólki, eru ekki ákjósanlegar fyrir krulluiðkun því mikla nákvæmni þarf til að vinna svellið rétt til að ná því besta fram í krulluíþróttinni. Mark Callan vann með félögum úr Krulludeild SA að því í vikunni að breyta skautasvelli í krullusvell og eru þær aðstæður sem þátttakendum er boðið upp nú, mun betri en áður. Meðfylgjandi myndir sem teknar voru í Skautahöllinni í dag, tala sínu máli.