Íslendingar hafa getað boðið börnum sínum tækifæri til lestrarnáms en læsi er nú skilgreint af SÞ sem grunnlífsleikni. Til að viðhalda lestrarfærni þarf að iðka lestur. Að frumkvæði Háskólans á Akureyri og Amtsbókasafnsins á Akureyri var ákveðið að taka nú í fyrsta sinn þátt í alþjóðadegi læsis til að leggja áherslu á mikilvægi læsis til gagns og gamans og þann auð sem þjóðin á í vel menntuðu fólki. Á Akureyri verður, þann 8. september, boðið upp á fjölbreytta og létta dagskrá á ýmsum stöðum bæjarins. Allir sem hafa umsjón með viðburðunum gefa vinnu sína.