"Almennt verkafólk samdi um 2,8% launahækkun í febrúar og vildi með því standa við þau fyrirheit að stuðla að stöðuleika í peningamálum í þessu landi. Síðan hafa aðrir launþegahópar sem eftir hafa komið ekki viljað taka þátt í að skapa stöðuleika í þessu landi og samið um miklar launahækkanir. Er það ásættanlegt? Það gengur ekki lengur að bæði ríkisvald og sveitafélög samþykki öll þessi frávik frá þeirri meginstefnu sem lá til grundvallar þeim kjarasamningum sem gerðir voru í desember og febrúar, segir í 1. maí ávarpi stéttarfélaganna við Eyjafjörð. Það er ekki hægt að sætta sig við að almennu launafólki sé mismunað með þeim hætti sem gert hefur verið og þolinmæði þess er algjörlega komin að þolmörkum.
Óásættanleg staða
Það hefur færst í vöxt að einstaklingar og fjölskyldur hafi ekki efni á að búa í mannsæmandi húsnæði af fjárhagslegum ástæðum og þurfa þess vegna að sætta sig við óásættanlegar aðstæður í þeim efnum. Eins er fólki gert erfitt fyrir að kaupa eða reka eigið húsnæði vegna núverandi aðstæðna í þjóðfélaginu. Þetta er með öllu óásættanlegt, segir í 1. maí ávarpi stéttarfélaganna við Eyjafjörð.