Föstudagurinn á Einni með öllu og Íslensku sumarleikunum fór vel fram og margmenni hefur lagt leið sína til Akureyrar um helgina. Kirkjutröppuhlaup fór fram með góðum undirtektum og sól gladdi mannskapinn fram á kvöld, segir í tilkynningu.
Hátíðardagskrá í miðbænum vakti mikla lukku þar sem Dúndúrfréttir, Marína og Mikael, Hamrabandið, Gréta Salóme, Kristín Tómarsar og Anton skemmtu fólki.
Laugardagurinn er ávallt stór á hátíðinni og þar má nefna viðburði eins og Mömmur og möffins, Barnadagskrá Greifans, Þríþraut og Hátíðardagskrá kvöldsins þar sem Brinir og Flóni stíga á stokk ásamt fleirum.
Allar upplýsingar um dagskrá helgarinnar má finna á www.einmedollu.is. Tjaldsvæði á og við Akureyri eru þétt setin en þó er ennþá pláss fyrir þá sem vilja leggja leið sína norður.