Alls 20 milljónum úthlutað til menningarverkefna

Menningarráð Eyþings úthlutar  í dag rúmum 20 milljónum króna til menningarstarfs á starfssvæði Eyþings við hátíðlega athöfn í Hótel Reynihlíð Mývatnssveit kl. 13.00. Þetta er í sjöunda sinn sem úthlutað er styrkjum samkvæmt samstarfssamningi mennta- og menningarmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og sveitarfélaga í Eyþing um menningarmál.  

Ávarp flytur Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir formaður Menningarráðs Eyþings og Bergur Elías Ágústsson formaður Eyþings. Við sama tækifæri verður undirritaður samstafssamningur sveitarfélaga í Eyþingi um menningarmál. Við athöfnina verða viðstaddir styrkþegar menningarráðs, sveitarstjórnarmenn og gestir. Menningarráðið leggur jafnan áherslu á að þau verkefni sem hljóta styrki efli á einhvern hátt samstarf og/eða samvinnu í menningarmálum á Norðurlandi eystra eða dragi fram menningaleg sérkenni svæðisins.  Áherslur við úthlutun þessa árs eru meðal annars verkefni sem stuðla að samvinnu atvinnumanna í listum, listnema og leikmanna, verkefni sem hvetja til samvinnu ólíkra þjóðarbrota í samstarfi við Íslendinga, verkefni sem efla þekkingu og fræðslu á sviði menningar og lista og verkefni sem efla atvinnustarfsemi á sviði menningar og lista.

Nýjast