Allir í Arnarneshreppi tengdir ljósleiðara fyrir jól

Þess er vænst að öll heimili í Arnarneshreppi verði tengd ljósleiðara fyrir jól, en nokkrar tafir hafa verið á verkefninu, stofnstreng hefur vantað til ljúka því en hann var væntanlegur til Akureyrar um miðja vikuna, að sögn Axels Grettissonar oddvita hreppsins.  

Heimtaugar eru komnar í öll hús í sveitarfélaginu og allur frágangur þannig tilbúinn.  Beðið hefur verið eftir áðurnefndum stofnstreng, sem lengi var fastur úti í Rotterdam.  Strengurinn mun liggja frá Kjarna þvert í gegnum sveitarfélagið að Litla-Dunhaga.  Axel segir að strengurinn hafi verið greiddur fyrir margt löngu, fyrst hafi orðið tafir við framleiðslu hans, þá var beðið eftir ferð til landsins, en strengurinn varð af einhverjum ástæðum eftir í Hollandi, "þetta allt tafði verkið um rúma tvo mánuði," segir Axel en áætlað var að verkefninu lyki nú á liðnu hausti. 

Nú er strengurinn kominn og bíður þess að verktakinn, Tengir ehf. hefjist handa við að plæga og verður það gert á næstu dögum að sögn oddvita.  Ljósleiðarasamband hefur verið á Hjalteyri um nokkurra mánaða skeið, en nú horfa íbúar til þess að öll heimili verði ljósleiðaravædd fyrir jólin.

Nýjast