Álitlegri hugmyndir en sveitarfélagið hefði getað gert betur

Tillaga sem Yrki arkitektar hafa unnið fyrir SS Byggi vegna uppbyggingar á svæði við Tónatröð hefur …
Tillaga sem Yrki arkitektar hafa unnið fyrir SS Byggi vegna uppbyggingar á svæði við Tónatröð hefur verið lögð fram í skipulagsráði Akureyrarbæjar. Breyta þarf bæði aðal- og deiliskipulagi vegna uppbyggingarinnar og hefur skipulagsráð tekið jákvætt í að þær breytingar verði gerðar. Framundan er að skoða ýmsa þætti er varða þessa uppbyggingu.

„Ég er þeirrar skoðunar að sveitarfélagið eigi í hvívetna að stunda góða stjórnsýslu og sjá til þess að leikreglur séu skýrar og greinilegar svo allir sitji við sama borð, í máli Tónatraðar hefði sveitarfélagið getað gert mun betur í þeim efnum,“ segir Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur tekið fyrir tillögu að uppbyggingu við Tónatröð og samþykkt að hefja vinnu við breytingu á skipulagi svæðisins. Bæjarstjórn heimilaði verktakafyrirtækinu SS Byggi ehf í vor að vinna að breytingum á því skipulagi sem fyrir var og nú hefur verið lögð fram tillaga Yrki arkitekta að útfærslu byggðar. Tillagan felur í sér breytt fyrirkomulag lóða og húsa, aukið er við byggingamagn og fjölgun íbúða frá núverandi skipulagi. Breyta þarf bæði aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna uppbyggingar á svæðinu. Skipulagsráð hefur tekið jákvætt í að skipulagi verði breytt, en sviðsstjóra er falið að skoða betur afmörkun svæðisins, umfang uppbyggingarinnar, áhrif hennar á nánasta umhverfi, umferð til og frá svæðinu, jarðvegsaðstæður og fleira.

Hilda Jana bendir á að í deiliskipulagi sé svæðið við Tónatröð skilgreint fyrir einbýlishús, en meirihluti bæjarstjórnar hafi engu að síður heimilað einu tilteknu fyrirtæki að vinna að gerð breytinga á skipulagi svæðisins á grunni umsóknar þess. Sú umsókn hafi miðað að uppbyggingu fjölbýlishúsa og heimildin veitt með ýmsum fyrirvörum.

Farsælast að allir hafi jöfn tækifæri

„Við, fimm fulltrúar í bæjarstjórn töldum hins vegar í anda góðrar stjórnsýslu og jafnræðis, eðlilegt að bæjarstjórn tryggði að allir áhugasamir fengju jöfn tækifæri til að sækjast eftir lóðum við Tónatröð á breyttum forsendum.  Við lögðum til að svæðið yrði skipulagt sem almennur þróunarreitur og auglýst eftir samstarfaðilum vegna vinnu við skipulag hans, þó með þeim skilyrðum að uppbygging falli vel að nærliggjandi byggð. Ég er enn þeirrar skoðunar að sú leið hefði verið farsælust,“ segir Hilda Jana. Hún bætir við að þær hugmyndir sem nú liggja til grundvallar uppbyggingu á svæðinu séu að sínu mati mun álitlegri en þær sem fyrst voru lagðar fram.

/MÞÞ


Athugasemdir

Nýjast