Alhvít jörð á Akureyri í morgun

Jörð var alhvít á Akureyri þegar bæjarbúar risu úr rekkju í morgun og enn snjóar. Ökumenn þurfa að skafa snjó af bílum sínum áður en lagt er af stað og víða um bæinn getur verið hálka á götum. Það er því vissara fyrir vegfarendur að fara að öllu með gát.  

Félagar í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, aðstoðuðu erlenda ferðamenn í gær en þeir leituðu eftir aðstoð eftir að hafa fest bílaleigubíl sinn í snjó í leiðindaveðri austan við Laugafell. Fór einn bíll frá sveitinni til aðstoðar og gekk greiðlega að losa bílinn og var ferðafólkinu síðan fylgt til byggða í Eyjafirði. Að beiðni lögreglu fór sveitin einnig á Öxnadalsheiði í gærkvöld til að aðstoða ökumenn sem voru þar í vandræðum á vanbúnum bílum vegna mikillar hálku á veginum. Var þetta önnur ferðin sem sveitin fór á Öxnadalsheiði til aðstoðar ökumönnum á einum sólarhring, en í fyrrakvöld voru ökumenn einnig aðstoðaðir þar.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er snjóþekja, hálka og éljagangur á helstu þjóðvegum á Norðurlandi. Einnig eru hálkublettir á Mývatnsöræfum. Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir víða. Ófært er um Hrafnseyrar-, Þorskafjarðar-, Tröllatungu- og Steinadalsheiði. Aðrir vegir eru greiðfærir.

Nýjast