Um 40 eldri borgarar gengu fjórar leiðir um Akureyrarbæ á dögunum þar sem sest var á bekki reglulega og skrafað í leiðinni. Forsaga málsins er sú að Félag sjúkraþjálfara varð 70 ára fyrir fjórum árum og í tilefni þess var farið af stað með samfélagsverkefni sem hvatningu til aukinnar hreyfingar til hagsbóta fyrir almenning. Eitt þeirra var verkefnið Að brúka bekki.
Á Akureyri voru það Norðurlandsdeild Félags sjúkraþjálfara og Félag aldraðra á Akureyri sem fóru þess á leit við fyrirtæki í bænum að þau styrktu verkefnið með því að gefa bekki. Bekkirnir eru sérmerktir fyrirtækjunum sem gáfu þá. Akureyrarbær kemur inn í verkið með því að halda leiðum opnum yfir veturinn og með viðhaldi bekkja.