Albertína nýr verkefnastjóri atvinnumála

Albertína Friðbjörg.
Albertína Friðbjörg.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri atvinnumála hjá Akureyrarbæ og staðfesti stjórn Akureyrarstofu ráðninguna á síðasta fundi sínum. Akureyrarstofa annast málaflokkinn fyrir Akureyrarbæ en í burðarliðnum er nýtt atvinnu- og nýsköpunarráð og verður verkefnisstjórinn starfsmaður þess. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akureyrarbæ.
 
Albertína er 34 ára, fædd og uppalin á Ísafirði. Hún lauk BA-prófi í félagsfræði með fjölmiðlafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 2005 og meistaraprófi í landfræði með áherslu á byggðamál á Íslandi frá sama skóla árið 2012.
 
Núverandi starf Albertínu er hjá Nýssköpunarmiðstöð Íslands á Ísafirði. Hún annaðist uppsetningu, rekstur og kynningu á stafrænni smiðju, svonefndri „FabLab”, sem starfrækt er þar og á nokkrum öðrum stöðum á landinu, auk þess að sinna öðrum verkefnum fyrir Nýsköpunarmiðstöðina.
 
Albertína hefur einnig verið verkefnisstjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða, verkefnisstjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfirðinga, forstöðumaður Gamla apóteksins á Ísafirði sem er upplýsinga- og menningarhús ungs fólks, ráðgjafi og verkefnisstjóri hjá Skóla- og fjölskyldusviði Ísafjarðarbæjar auk þess sem hún hefur verið upplýsingafulltrúi Fossagöngunar, svo nokkuð sé nefnt.
 
Albertína hefur verið virkur þátttakandi í félagsmálum á Ísafirði og var forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar síðastliðin 4 ár. Hún hefur störf hjá Akureyrarbæ í sumar.

Nýjast