Í þessum mánuði hefjast sýningar á einu stærsta sjónvarpsverkefni síðustu ára hér á landi, The Biggest Loser Ísland, og eiga Akureyringar fulltrúa í þáttunum. Á meðal keppenda er baráttukonan Hrönn Harðardóttir, 30 ára viðskiptafræðinemi við Háskólann á Akureyri.
Hrönn er ein 12 þátttakenda sem valdir voru til þáttöku í The Biggest Loser Ísland en þættirnir eru byggðir á samnefndum raunveruleikasjónvarpþáttum sem sýndir hafa verið í Bandaríkjunum undanfarin 10 ár við miklar vinsældar og hafa meira en 25 lönd gert sína eigin útgáfu af þættinum. Það var mikill spenningur fyrir íslensku útgáfunni og sóttu um það bil þrettán hundruð einstaklingar um að komast í þáttinn.
The Biggest Loser Ísland voru teknir upp víðsvegar á Reykjanesi og dvöldu keppendur í tíu vikur á heilsuhótelinu á Ásbrú undir leiðsögn þjálfara þáttarins, þeirra Everts Víglundssonar og Gurrýjar Torfadóttur, sem veittu keppendum þann stuðning sem til þarf í átt að breyttum lífsháttum. Tökum þáttanna er lokið, að undanskildum úrslitaþættinum sem sýndur verður í beinni útsendingu í apríl. Allir þátttakendur eru því komnir heim en eru ennþá í stífu æfingaprógrammi því keppninni er hvergi nærri lokið.
Boðið verður upp á sérstaka forsýningu á fyrsta þætti The Biggest Loser Ísland fyrir íbúa á Akureyri í Borgarbíói, annað kvöld klukkan 20:30 Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Athugið að vegna þess að sætaframboð er takmarkað þarf að sækja miða í Borgarbíó.
Það eru SkjárEinn og Saga Film sem framleiða íslensku útgáfuna af The Biggest Loser. Inga Lind Karlsdóttir mun stýra þáttunum sem sýndir verða á fimmtudagskvöldum frá og með 23. janúar á SkjáEinum.