Akureyri vann langþráðan sigur á FH

Akureyri vann langþráðan sigur á FH í kvöld, 33:30, er liðin mættust í Íþróttahöllinni á Akureyri í N1- deild karla í handbolta, en fram að leiknum í kvöld hafði FH lagt Akureyri þrívegis að velli í vetur. Norðanmenn hófu leikinn af krafti og fyrri hálfleikur liðsins var frábær í bæði vörn og sókn. Heimamenn komust í 5:1 og gestirnir áttu í miklu basli með spræka Akureyringa sem höfðu sex marka forystu í hálfleik, 18:12.  

FH- ingar nýttu sér leikhléið vel og komu sterkir inn í seinni hálfleik. Pálmar Pétursson í marki gestanna fór að verja eins og bersekur eftir arfaslakan fyrri hálfleik og FH náði að jafna metin í 20:20 þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Leikurinn var stál í stál næstu mínútur og spennan í Höllinni rafmögnuð.

FH- ingar fengu nokkur tækifæri til þess að komast yfir um miðjan seinni hálfleik en Hörður Flóki Ólafsson í marki heimamanna sá við þeim en Hörður varði 20 skot í leiknum og oft á tíðum á afar mikilvægum augnablikum. Heimamenn voru svo sterkari á lokasprettinum og tryggðu sér afar mikilvægan þriggja marka sigur og tvö dýrmæt stig í toppbaráttunni.

Heimir Örn Árnason átti frábæran leik fyrir Akureyri og skoraði 8 mörk, þar af 5 þeirra í fyrri hálfleik. Árni Þór Sigtryggsson skoraði sömuleiðis 8 mörk, þeir Oddur Gretarsson og Guðmundur Hólmar Helgason skoruðu 5 mörk hvor og Jónatan Þór Magnússon kom þar næstur með 3 mörk. Sem fyrr segir átti Hörður Flóki Ólafsson stórleik í marki Akureyrar með 20 skot varin.

Í liði FH var Bjarni Fritzon langmarkahæstur með 12 mörk, þar af komu 6 þeirra úr vítum. Ólafur Gústafsson skoraði 6 mörk og Ólafur Guðmundsson kom næstur með 4 mörk. Í marki FH varði Pálmar Pétursson 11 skot, öll í seinni hálfeik, og Daníel Andrésson varði 2 skot.

Með sigrinum styrkti Akureyri stöðu sína í öðru sæti deildarinnar með 22 stig, en FH hefur 19 stig í fjórða sæti.

Nýjast