Leikmenn Akureyrar Handboltafélags sýndu úr hverju þeir eru gerðir eru þeir unnu stórsigur á Gróttu, 33:19, í Íþróttahöll Akureyrar í kvöld í N1- deild karla í handbolta. Eftir slæma útreið gegn FH í síðasta leik þurftu norðanmenn heldur betur að rífa sig upp fyrir leikinn í kvöld og sýna góðan leik og það gerðu þeir sannarlega. Akureyri hafði frumkvæðið í leiknum frá upphafi til enda og náðu fljótlega þægilegri forystu í leiknum.
Þegar um tíu mínútur voru liðnar af leiknum höfðu heimamenn fjögurra marka forystu 5:1 og leikmenn Gróttu komust lítt áleiðis gegn sterkri vörn norðanmanna. Áður en flautað var til leikhlés höfðu heimamenn aukið muninn í sjö mörk og staðan í hálfleik, 17:10.
Akureyri hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik og náði fljótlega tíu marka forystu, 22:12, en norðanmenn náðu mest sextán marka forystu í leiknum í stöðunni 30:14 þegar um tíu mínútur lifðu leiks. Akureyri hélt dampi út leikinn og féll ekki í þá gryfju að missa niður gott forskot eins og oft áður í vetur, heldur hélt öruggri forystu út leikinn og fögnuðu að lokum fjórtán marka sigri.
Oddur Gretarsson fór fyrir markaskorun í liði Akureyrar í kvöld og skoraði 9 mörk, þar af 3 úr víti. Árni Þór Sigtryggsson skoraði 8 mörk, Heimir Örn Árnason 4 mörk og Hörður Fannar Sigþórsson kom næst honum með 3 mörk. Hörður Flóki Ólafsson átti stórleik í marki Akureyrar og varði 18 skot.
Anton Rúnarsson var markahæstur í liði Gróttu í leiknum, en þessi fyrrum leikmaður Akureyrar skoraði 8 mörk á sínum gamla heimavelli, þar af 3 úr víti. Magnús Sigmundsson varði 7 skot í liði gestanna í fyrri hálfleik og Gísli Guðmundsson átti góða innkomu í mark Gróttu í seinni hálfleik og varði 12 skot.
Akureyri er þar með komið með 13 stig í 4. sæti deildarinnar, en Grótta situr í 6. sæti með átta stig.