Akureyri tapaði fyrir Fram

Handboltalið Akureyrar tapaði í dag 27-29 fyrir Fram í Reykjavík í DHL-deild karla. Akureyri var alltaf á eftir í leiknum ef undan eru skildar fyrstu 10 mínútur leiksins.

Akureyri lenti undir 9-6 um miðbik fyrri hálfleiks þegar Fram átti góðan kafla og skoraði 4 mörk í röð. Eftir það hafði Fram yfirhöndina og þó svo að Akureyri næði að jafna tvisvar höfðu Framarar 15-14 forystu í hálfleik.
Jankovic var góður í fyrri hálfleik hjá Akureyri og skoraði þá 5 af alls 6 mörkum sínum í leiknum.
Í síðari hálfleik byrjuðu Framarar mun betur og náðu fljótlega öruggri forystu sem varð mest sex mörk í stöðunni 25-19 þegar um 10 mínútur voru til leiksloka. Var það sérstaklega slæmur sóknarleikur Akureyrar sem var orsök þess að liðið lenti svo langt á eftir sprækum Frömurum.
Eins og svo oft áður í vetur hins vegar vöknuðu Akureyringar til lífsins síðustu 10 mínúturnar með frábærum varnarleik og ákveðnum sóknarleik. En það var einmitt ákveðnin sem hafði vantað svo mikið í sóknarleikinn lengst af leik.
Magnús Stefánsson minnkaði muninn í eitt mark 27-26 þegar um ein og hálf mínúta var eftir. Framarar tóku þá langa sókn og náðu að skora þegar hönd dómarans var komin upp til að gefa til kynna að bráðlega yrði dæmd leiktöf.
Tíminn var því miður of naumur fyrir Akureyri til að ná að jafna leikinn og gullið tækifæri til að fara upp fyrir Stjörnuna í 4 sætum gekk því úr greipum liðisins í dag.
Magnús Stefánsson átti góðan leik hjá Akureyri í síðari hálfleik og var á stundum sá eini sem tók af skarið í sókninni. Einnig átti Hörður Fannar Sigþórsson ágætis leik.
Næsti leikur Akureyrar er á heimavelli miðvikudaginn 11. apríl nk. og eru það Fylkis menn sem koma í heimsókn í gríðarlega mikilvægan leik sem gæti skorið úr um það hvort Akureyri verður í fallbáráttu það sem eftir er vetrar eður ei.

Nýjast