Akureyri Handboltafélag og HK mætast í gríðarlega mikilvægum leik í Íþróttahöllinni á Akureyri kvöld kl. 19:30, þegar næstsíðasta umferð N1- deildar karla í handbolta fer fram. Baráttan um sæti í úrslitakeppninni er í algleymingi nú þegar tvær umferðir eru eftir. Þau lið sem berjast um sætin þrjú og að fylgja Haukum í úrslitakeppnina eru Akureyri, HK, Valur og FH. Þessi fjögur lið mætast innbyrðis í kvöld en FH og Valur eigast við í Kaplakrika. Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:30.
Akureyri og HK eru jöfn að stigum fyrir leikinn í kvöld með 22 stig, Akureyri í þriðja sæti deildarinnar og HK í fjórða sæti.
Valur er í öðru sæti með 23 stig og FH í fimmta sæti með 21 stig. Línur gætu því farið að skýrast eftir leikina í kvöld en að öllum líkindum ræðst þetta ekki fyrr en í lokaumferðinni á fimmtudaginn kemur.