Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn. Liðin skiptust á að hafa forystu en munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk. Sveinbjörn Pétursson var í banastuði í marki Akureyrar og varði fimm skot á fyrstu átta mínútum leiksins, þar af eitt víti. Hjá HK-mönnum dró Ólafur Bjarki Ragnarsson vagninn í sóknarleiknum en hann skoraði fimm mörk í fyrri hálfleik. Það var skarð fyrir skildi í vörn Akureyrar að varnartröllið Guðlaugur Arnarsson veiktist klukkutíma fyrir leik og sat heima með flensu.
Staðan í hálfleik, 14:14, og allt í járnum í Höllinni.
Líkt og fyrri hálfleikurinn var sá seinni stál í stál. Akureyri komst í 17:15 í upphafi seinni hálfleiks. HK-menn tóku þá við sér og skoruðu þrjú mörk í röð og breyttu stöðunni í 18:17 sér í vil. Þegar seinni hálfleikurinn var hálfnaður hafði Akureyri tveggja marka forystu, 20:18. Akureyringar náðu svo þriggja marka forystu þegar sjö mínútur voru til leiksloka, 24:21, og var það mesti munurinn á liðunum hingað til í leiknum. Ólafur Bjarki var tekinn úr umferð og við það riðlaðist sóknarleikur gestanna.
HK-menn misstu mann útaf og heimamenn gátu aukið muninn í fjögur mörk en í staðinn minnkaði HK muninn í tvö mörk. Staðan 24:22. Heimamenn náðu svo þriggja marka forystu, 26:23, þegar ein mínúta og 45 sekúndur voru eftir og sigurinn í höfn. Oddur Gretarsson innsiglaði sigurinn endanlega með marki hálflri mínútu fyrir leikslok.
Lokatölur 28:25.
Mörk Akureyrar: Guðmundur Hólmar Helgason 8, Bjarni Fritzson 7 (2 úr víti), Oddur Gretarsson 5 (1 úr víti), Daníel Einarsson 3, Heimir Örn Árnason 3, Hreinn Þór Hauksson 2, Hörður Fannar Sigþórsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 17.
Mörk HK: Ólafur Bjarki Ragnarsson 12 (5 úr víti), Leó Snær Pétursson 3, Bjarki Már Elísson 2, Vilhelm Gauti Bergsveinsson 2, Atli Karl Backmann 2, Bjarki Már Gunnarsson 1, Hörður Másson 1, Atli Ævar Ingólfsson 1.
Varin skot: Björn Ingi Friðþjófsson 10, Andrés Örn Aðalsteinsson 4.