Akureyri kjörstaður fyrir Fiskistofu

Borgir við Háskólann á Akureyri hefur verið nefndur sem hugsanleg staðsetning fyrir Fiskistofu á Aku…
Borgir við Háskólann á Akureyri hefur verið nefndur sem hugsanleg staðsetning fyrir Fiskistofu á Akureyri. Mynd/Hörður Geirsson

Meirihluti bæjarráðs Akureyrar lýsir yfir fullum stuðningi við ákvörðun stjórnvalda um að fjölga opinberum störfum í bænum með því að staðsetja höfuðstöðvar Fiskistofu á Akureyri. Bókun þess efnis var samþykkt á bæjarráðsfundi í morgun.  „Sú ákvörðun er í samræmi við ítrekaðar ályktanir bæjarráðs um mikilvægi þess að slík fjölgun eigi sér stað og í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda. Akureyrarbær hefur þurft að horfa á eftir störfum af svæðinu og er því um ánægjulegan viðsnúning að ræða. Akureyri er kjörstaður fyrir starfsemi Fiskistofu vegna þeirrar sérfræðiþekkingar sem til staðar er í bænum á sjávarútvegi bæði hjá Háskólanum á Akureyri og hjá fyrirtækjum er starfa í greininni á Norðurlandi.

Meirihluti bæjarráðs vill árétta að á Akureyri er fjölbreytt og sterkt samfélag sem er vel í stakk búið til þess að þar séu reknar stofnanir á vegum ríkisins á borð við Fiskistofu og munu bæjaryfirvöld standa vel að baki starfseminni. Skiljanlegt er að flutningur stofnunarinnar valdi starfsmönnum hennar áhyggjum. Meirihluti bæjarráðs lýsir yfir vilja til að aðstoða þá starfsmenn sem vilja flytja með stofnuninni og hvetur þá til að útiloka ekki strax þann möguleika. Meirihluti bæjarráðs telur að með samstilltu átaki verði hægt að taka vel á móti því fólki og aðstoða eftir föngum til að verða hluti af nýju samfélagi," segir í bókun.

Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi Vg sat hjá vegna ofangreinda bókunar.

„Ég lýsi yfir fullum stuðningi við stefnu stjórnvalda um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðunum og flytja starfsemi opinberra stofnana en bendi á að mikilvægt er að útfæra stefnuna á faglegan hátt, meðal annars með aðferðum breytingastjórnunar. Mikilvægt er að íbúar á landsbyggðunum geti valið sér störf eftir áhugasviði og sérþekkingu og því skora ég á stjórnvöld að setja aukinn kraft í verkefnið Störf án staðsetningar og gera þar með öllum Íslendingum kleyft að sækja um opinber störf óháð búsetu,“ segir Sóley.

Nýjast